Kort af Akureyri og Eyjafjarðarsveit sem sýnir skógarþekju þar 2013
Kort af Akureyri og Eyjafjarðarsveit sem sýnir skógarþekju þar 2013

Er landið að sökkva í skóg?

Ræktaðir skógar og náttúrlegt birkilendi þekur innan við tvö prósent af Íslandi. Aðeins þrjú ríki í Evrópu hafa minni skógarþekju en Ísland. Þau eru Malta, Mónakó og Vatíkanið. Samkvæmt skilgreiningu FAO, landbúnaðar- og matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, þarf trjágróður að vera hærri en 5m, með lágmarksstærð hálfan hektara og með meira en 10% krónuþekju til að þar teljist vera skógur. Á Íslandi er hins vegar miðað við 2m hæð sem þýðir að trjágróður hærri en það er skilgreindur sem skógur.

Þegar lög nr. 56 um landshlutabundin skógræktarverkefni voru sett árið 1999 var stefnt að því að á fyrstu fjörutíu árum verkefnanna skyldi ræktaður skógur á 5% láglendis. Þar er láglendi skilgreint allt land sem er undir 400 metra hæð yfir sjó. Þetta jafngildir tveimur prósentum af flatarmáli alls landsins, þar með töldum fjöllum, hálendinu og jöklum. Þrátt fyrir að þetta sé mjög lítill hluti landsins heyrist oft til fólks sem hefur áhyggjur af því að til standi að sökkva landinu í skóg eða búa til umhverfi eins og í Skandinavíu þar sem hvergi sjái til fyrir skógi.

Til að gefa svolitla mynd af því hvernig landið gæti litið út með 5% skógarþekju er upplagt að taka Eyjafjörðinn sem dæmi, Eyjafjarðarsveit og Akureyri. Skógarþekja á láglendi neðan 400m hefur þar náð 4,3 prósentum. Mikill skógur er á og við Akureyri og svo eru skógarreitir víða um sveitirnar framan Akureyrar, eins og sagt er þar um slóðir, með öðrum orðum innan við bæinn, upp um Eyjafjarðardali. Útbreiðsla skóganna sést vel á meðfylgjandi korti.

Mjög lítið var eftir af leifum náttúrlegs birkiskógar í Eyjafirði þegar skógrækt hófst þar á fyrri hluta síðustu aldar. Birkiskógurinn í Leyningshólum er nánast einu leifar náttúrlegs birkilendis og minni skógarleifar voru á víð og dreif annars staðar, til dæmis í Garðsárreit í Garðsárdal. Báðir þessir reitir voru friðaðir og hafa síðan verið í umsjón skógræktarfélaganna á svæðinu sem nú eru sameinuð í Skógræktarfélagi Eyfirðinga. Þessar gömlu skógarleifar eru samtals ekki nema um 30 hektarar, en ræktaður skógur í Eyjafirði er um 1.400 ha. Á því sést að mestallur skógur á Akureyri og í Eyjafjarðarsveit er ræktaður skógur.

Skyldi fólki finnast að Eyjafjörðurinn sé að sökkva í skóg?

Við aðkomuna í Grundarreit

Grundarreitur í Eyjafirði


Kort: Björn Traustason