Hráefnisauðlind og vistkerfi
Landbúnaðarháskóli Íslands er eini háskóli landsins sem býður upp á nám í skógfræði. Fléttað er saman námsgreinum á sviði náttúruvísinda, skógfræði, landgræðslu, tæknifræði, stjórnunar og hagfræði og einnig er farið inn á svið landupplýsinga og landslagsfræða. Lögð er áhersla á að veita nemendum traustan vísindalegan grunn og um leið að búa þá sem best undir störf sem fræðimenn, stjórnendur eða sjálfstæðir atvinnurekendur. Ekki er boðið upp á hliðstæða samsetningu náms við aðra íslenska háskóla.
Skógfræði og landgræðsla er þriggja ára BS-nám. Annars vegar er um að ræða nám með áherslu á sjálfbæra skógrækt og hins vegar á endurheimt vistkerfa á illa förnu landi, jarðvegs- og gróðurvernd og aðra landgræðslu.
Boðið er upp á tvær námslínur, skógfræði og landgræðslufræði, sem eru nánast eins fyrstu tvö árin en aðgreinast síðan á lokaári námsins.
Námsskrá: Skógfræði / Landgræðsla
- Skógfræði
Námslína í skógfræði: Áhersla er lögð á skóginn, bæði sem endurnýjanlega hráefnisauðlind á Íslandi og sem vistkerfi sem veitir margvíslega vistþjónustu. Ræktunartækni skógræktar, sjálfbær nýting og umhirða skóglenda, aðlögun að landslagi, vönduð áætlanagerð og skipulag framkvæmda sem og nýsköpun eru áherslur línunnar.
- Landgræðsla
Námslína í landgræðslu: Áhersla er lögð á fræðilegan grunn og hagnýta þekkingu á sviði vistheimtar og sjálfbærrar landnýtingar, sem miðar að verndun og endurheimt gróðurs- og jarðvegsauðlinda. Hnignun landkosta og jarðvegseyðing hafa haft víðtæk áhrif á umhverfisgæði, bæði á Íslandi og alþjóðlega.
Atvinna
Umsvif skógræktar og landgræðslu eru að aukast og færast út til landeigenda og þar með að verða málaflokkur sem kemur í æ ríkari mæli til kasta sveitarfélaga, ýmissa opinberra stofnana og einkaaðila.
Á síðustu árum hefur þörf fyrir fólk með trausta fagþekkingu á þessu sviði stóraukist. Einnig eru að verða til lítil verktakafyrirtæki víða um land sem sérhæfa sig á þessu sviði og selja þjónustu sína til bænda, sveitarfélaga og annarra landeigenda.
Þetta er þverfaglegt nám sem nýtist einkar vel til starfa hjá hinu opinbera eða til sjálfstæðrar atvinnustarfsemi innan græna geirans. Einnig opnast möguleikar á störfum erlendis sem varða skógfræði og landgræðslu, t.d. í sambandi við þróunarverkefni í þriðja heiminum, en skógar- og jarðvegseyðing er oftar en ekki undirrót vandamála sem leysa þarf þar.
Enn fremur opnast margvísleg önnur atvinnutækifæri, t.d. í kennslu, landbúnaði, blaðamennsku og stjórnsýslu. Að sjálfsögðu verða nemendur þar í samkeppni við fólk með aðra menntun, en munu þá njóta óvenju þverfaglegs undirbúnings síns við að takast á við fjölbreytt viðfangsefni.
Smellið hér til að sjá myndband þar sem Bjarni Diðrik Sigurðsson prófessor segir frá náminu og möguleikum þess.
Umsókn um nám
Smella hér
Skógfræðinemar í vettvangsnámi með Bjarna Diðriki Sigurðssyni
(Mynd: www.skogarbondi.is)