Morgunblaðið fjallar um aukna útbreiðslu skóganna
Á það er bent í Morgunblaðinu í dag að skóglendi á Íslandi hafi stækkað um þriðjung á undanförnum aldarfjórðungi, úr 1.435 km3 árið 1989 í 1907 km3 árið 2014. Ræktaðir skógar hafi stækkað úr 401 km3 í 342 km3 eða um 580%. Í umfjöllun blaðsins er líka fjallað um aukna útbreiðslu birkiskóganna sem nú eru komnir í 1,5% af flatarmáli landsins og sérstaklega minnst á hversu mjög birkiskógarnir hafa breiðst út í Þórsmörk. Sú aukning er fimmföld enda svæðið verið friðað fyrir beit í 80 ár og Skógrækt ríkisins unnið þar að landbótastarfi æ síðan.
Þá segir blaðið einnig frá því að Landgræðla ríkisins vinni nú að því ásamt Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskóla Íslands að kortleggja útbreiðslu lúpínu á landinu. Grein blaðsins er á þessa leið:
Skóglendur á Íslandi hafa stækkað um 472 ferkílómetra á undanförnum 25 árum, sem gerir um þriðjungsaukningu, samkvæmt upplýsingum frá Skógrækt ríkisins. Heildarstærð skóglendna árið 1989 var 1.435 ferkílómetrar en 1.907 ferkílómetrar árið 2014. Ræktaðir skógar hafa stækkað mest á tímabilinu en árið 1989 voru þeir 59 ferkílómetrar en árið 2014 voru þeir 401 ferkílómetri, sem er stækkun upp á 342 ferkílómetra, eða um 580%.
Birki þekur 1,5% flatarmáls landsins
Náttúrulegt birki hefur einnig aukist töluvert á tímabilinu eða um 130 ferkílómetra sem gerir um 9,5% aukningu. Birkið þekur nú um 1,5% heildarflatarmáls landsins. Er þetta fyrsta staðfesta framfaraskeið eftir margra alda hnignunarskeið sem hófst í raun við landnám Íslands. Talið er að birkið hafi þakið 25% landsins við landnám. Aukningin skiptist þó ekki jafnt á alla landshluta en á Suðurlandi og Vestfjörðum hefur hún verið mest, eða 13% og 14%. Á Norðurlandi og Austurlandi hefur aukningin verið talsvert minni, eða 3% og 4%. Á Vesturlandi hefur aukningin numið 7%. Þetta eru niðurstöður rannsóknar Skógræktar ríkisins, sem hefur verið í gangi undanfarin ár.
Skógur breiðist út í Þórsmörk
Þórsmörk er eitt þeirra svæða þar sem mesta útbreiðslan hefur átt sér stað en árið 1989 þakti birkið aðeins um fjögurra ferkílómetra svæði. Nú þekur birkið um 14 ferkílómetra svæði sem er aukning um 10 ferkílómetra eða um 250%. Hér til hliðar má sjá yfirlitskort af flatarmáli birkis í Þórsmörk þá og nú.
Einnig stendur yfir kortlagning á lúpínu á Íslandi hjá Landgræðslu ríkisins. Stefnt var að því að hægt yrði að ljúka kortlagningu á útbreiðslu alaskalúpínu með aðstoð gervihnatta í sumar en unnið hefur verið að verkefninu undanfarin þrjú ár en lúpína er eitt af verkfærum Landgræðslunnar til þess að koma í veg fyrir að landsvæði leggist í eyði
Að sögn Örnu Bjarkar Þorsteinsdóttur, sérfræðings hjá Landgræðslu ríkisins, mun verkefnið þó eitthvað tefjast en reynt verður að klára það sem fyrst. Auk Landgræðslunnar hafa Náttúrufræðistofnun Íslands, Háskóli Íslands og Landmælingar Íslands komið að verkefninu.
Smellið á myndina hér fyrir neðan til að sjá greinina stærri með myndum.