Skjámynd af frétt Stöðvar 2 á visir.is
Skjámynd af frétt Stöðvar 2 á visir.is

Skógrækt er að verða að útflutningsgrein fyrir Íslendinga, segir skógræktastjóri. Ef björtustu spár Skógræktarinnar rætast verður skóglendi á Íslandi tvöfaldað á næstu tveimur áratugum.

Þannig hljóðar inngangur að frétt sem birtist í fréttatíma Stöðvar 2 sunnudaginn 23. janúar. Þar ræðir Óttar Kolbeinsson Proppé fréttamaður við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra. Fram kemur að áhugi bænda og fyrirtækja á skógrækt aukist og sömuleiðis fjárframlög til skógræktar í tengslum við aðgerðir íslenska ríkisins í loftslagsmálum. Þröstur segir að auðvitað sé fjármagn takmarkað. Nú eru gróðursettar um sex milljónir trjáplantna árlega á Íslandi en ef fram fer sem horfir gæti sú tala farið upp í tuttugu milljónir á ári eftir fimm ár. Skóglendi á landinu gæti þá farið úr um tveimur prósentum landsins nú upp í um fjögur prósent að mati Þrastar ef bjartsýnustu spár rætast. Munar þar miklu um Hekluskógaverkefnið þar sem unnið er að því að klæða 80-90 þúsund hektara lands birkiskógi.

Á síðasta ári fóru erlendir aðilar fyrir alvöru að sýna því áhuga að rækta skóg á Íslandi. „Það er alveg nýtt í þessu dæmi,“ segir Þröstur „og við getum kallað það nýja útflutningsgrein alveg eins og ferðaþjónusta er útflutningsgrein.“

Þegar hafa þrír stórir erlendir aðilar gert samninga við Skógræktina og viðræður eru í gangi við fimm til viðbótar, þar á meðal fjárfestafyrirtæki sem þurfa að uppfylla græna staðla í þágu loftslagsmála. „Þeir eru þá að leita að verkefnum verkefnum em þeir geta sett saman í fjárfestingapakka handa fjárfestum sem innihalda þá skógrækt á Íslandi. Það er bara djöfulli flott!“ segir Þröstur í fréttinni.

Texti: Pétur Halldórsson