„Kannski er skýrasta dæmið ef við horfum á tvær þjóðir sem búa á einni eyju, annað er Haítí en hitt er Dóminíska lýðveldið. Haítíbúar hafa raunverulega fjarlægt allan sinn skóg og eru að fá yfir sig miklar aurskriður, á meðan sama veðrakerfið fer yfir Dóminíska lýðveldið, á sömu eyju, og veldur þar miklu minni skaða,“ segir Halldór Þorgeirsson. Mynd af ruv.is
Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, sagði í þættinum Loftslagsþerapíunni á Rás 1 að skógrækt væri mjög merkileg leið til að bregðast við loftslagsbreytingum, bæði vegna þess að hún bindur kolefni en líka vegna þess að hún eykur viðnámsþol gagnvart þurrkum og aftakaveðri. Hann nefnir risastór skógræktarmarkmið Eþíópíubúa sem dæmi um þær náttúrulausnir sem nú eru að fara í gang.
Loftslagsþerapían er þáttaröð Arnhildar Hálfdánardóttur um loftslagsmál sem hefur verið á dagskrá á Rás eitt undanfarna laugardagsmorgna. Í síðasta þættinum sem sendur var út 2. nóvember var fjallað um möguleikana og tækifærin sem fyrir hendi eru til að ráða við loftslagsvandann. Þar var Halldór Þorgeirsson meðal viðmælenda og sagði ljóst að næsti áratugur yrði úrslitaáratugur. Nú væri neyðarástand og spurning hvort lýsa þyrfti yfir viðbúnaðarstigi. Á því stigi er ekki verið að yfirgefa húsið, segir hann, heldur grípa til allra tiltækra ráða til að bjarga því.
Um allar breytingar hefur verið sagt að þær séu ómögulegar, segir Halldór, allt þangað til ráðist var í þær. Hann nefnir endurnýjanlega orku sem dæmi. Spár sérfræðinga um framþróun hennar og möguleika hafi aldrei staðist. Þróunin hafi alltaf verið hraðari en spáð hafi verið. Mannskepnan sé ótrúlega öflug skepna, sérstaklega þegar við náum saman og förum að treysta hvert öðru. Einingin sé mjög mikið afl. Þetta hafi ekki verið virkjað nægilega mikið því sundrung hafi verið ríkjandi.
Parísarsamkomulagið frá 2015 felur í sér sameiginlegt markmið 200 ríkja heimsins um að ná kolefnishlutleysi um miðja þessa öld, draga stórkostlega úr losun en líka vinna að aðlögun og bindingu. Hann segir að nú sé að nást nokkur árangur í aðlögun en miklu meira þurfi að fjárfesta í þeim efnum, til dæmis í tengslum við flóttamannavandann. Nú þegar séu margir loftslagsflóttamenn í heiminum en draga megi úr hættunni á að þeim fjölgi enn frekar. Þar telur hann að Ísland geti gert mun meira en nú er gert. Hann talar um að bæði þurfi að draga úr losun og búa sig undir afleiðingar loftslagsbreytinganna. Hann segir:
„Þó ég aðgreini þetta tvennt, að draga úr losun og búa sig undir afleiðingar, þá er margt sem þú getur gert sem skilar árangri frá báðum hliðum. Það sem er kannski mest spennandi núna er að horfa á hvað hægt er að ná miklum árangri með skógrækt og draga úr skógareyðingu. Skógrækt er mjög merkileg viðbragðsleið vegna þess að hún bindur kolefni en hún eykur líka viðnámsþol gagnvart þurrkum og aftakaveðri. Kannski er skýrasta dæmið ef við horfum á tvær þjóðir sem búa á einni eyju, annað er Haítí en hitt er Dóminíska lýðveldið. Haítíbúar hafa raunverulega fjarlægt allan sinn skóg og eru að fá yfir sig miklar aurskriður, á meðan sama veðrakerfið fer yfir Dóminíska lýðveldið, á sömu eyju, og veldur þar miklu minni skaða.
Kannski eru mest spennandi af því sem maður hefur heyrt nýverið þessi viðbrögð þeirra í Eþíópíu. Þeir ætla að ná til baka, ætla að planta, fjórum milljörðum trjáa. Þeir plöntuðu 350 milljónum trjáa á einum degi. Eitt af stærstu málunum sem eru að fara í gang núna er það sem hefur verið kallað „náttúrulausnir“.“
Halldór segir vissulega oft lamandi að fylgjast með þessum málum, meðal annars að nú séu víða við völd í heiminum stjórnmálamenn sem keyptu embætti sitt með fjármunum sem fengnir voru úr kolaiðnaðinum. Það sé hluti af hinum kerfislæga vanda sem við stöndum frammi fyrir. Stjórnmálakerfið sé mjög illa statt. Við tölum um lýðræði en lýðurinn ráði ekki. Hagkerfið sé líka mjög blint þegar kemur að loftslagsvandanum. Kostnaðurinn við að dæla gróðurhúsalofttegundunum út í andrúmsloftið komi hvergi fram. Þó að enginn þurfi að borga fyrir að losa sé það ekki ókeypis. Þessu hafi verið lýst sem mesta markaðsbresti sögunnar og þótt verið sé að vinna að því að leiðrétta þennan markaðsbrest gangi það mjög hægt.
Aðspurður um hvort Íslendingar séu komnir á viðbúnaðarstigið segir Halldór að við séum að komast nær því. Mikil samstaða sé innan ríkisstjórnarinnar og markmiðið um kolefnishlutleysi 2040 sé mjög mikilvægt, hvort sem það er nægilega snemmt eða ekki. Engin spurning sé að jörðin þurfi að ná kolefnisjafnvægi eins snemma og hægt er eftir 2050. Lausnirnar séu til staðar en þeim sé ekki beitt nægilega hratt.
Halldór segir að bjartsýni sé nokkuð sem þurfi að ákveða en gerist ekki af sjálfu sér. Mjög mikilvægt sé að horfast í augu við staðreyndirnar en líka nærast á góðu fréttunum, jákvæðum fréttum sem eru vísbendingar um það sem er að gerast, kerfislægar breytingar sem eru í gangi. Honum hafi t.d. létt mikið við þau tíðindi að nú væri meira rafmagn framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum í Bandaríkjunum en með kolum. Með því að sjá gróandann, þessa hluti sem eru að gerast, viti fólk betur hvert það eigi að beina kröftunum. Líta þurfi á vinnuna að lausn vandans eins og ræktun, að rækta framtíðina.