Nýjum markmiðum í loftslagsmálum skal náð með skógrækt
Í nýju samkomulagi sem samninganefndir Íslands og ESB hafa undirritað eru sett fram sameiginleg markmið í loftslagsmálum sem hluti af Kýótó-bókuninni. Samkvæmt þeim þarf Ísland að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 31% fyrir 2020 að stóriðju frátalinni. Helmingi þessa markmiðs á að ná með skógrækt og landgræðslu.
Ísland þarf samkvæmt samkomulaginu að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda um 31 prósent fyrir árið 2020 að undanskilinni losun frá stóriðju. Fram kemur að helmingi þessa markmiðs skuli ná með skógrækt og landgræðslu. Árið 2012 losuðu Íslendingar um 2,78 milljónir tonna af gróðurhúsalofttegundum en í samkomulaginu stendur að þetta skuli lækka niður í 1,98 milljónir tonna fram til ársins 2020. Þetta er hartnær þriðjungs samdráttur.
Auk skógræktar og landgræðslu er stefnt að því að draga úr losuninni með ýmsum ráðum, væntanlega með betri orkunýtingu en jafnvel líka með því að Íslendingar kaupi losunarheimildir.
Losun frá stóriðju er ekki innifalin í þessu samkomulagi því hún tilheyrir kolefnismarkaði Evrópuþjóða. Íslendingar og aðrar þjóðir Evrópu bera sameiginlega ábyrgð á þessari losun og ein leiðin til að ná markmiðum um samdrátt hennar er að kaupa losunarkvóta af þeim sem eru aflögufærir. Í þessum hluta hefur markið verið sett á að draga úr losun um 20% fram til 2020 frá því sem losað var 1990. Af allri losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi nemur losun stóriðjunnar 40 prósentum.
Ljóst er að nægt landrými er á Íslandi til bindingar kolefnis í skógi. Eins og fram hefur komið áður hér á vef Skógræktarinnar eru tólf þúsund ferkílómetrar landsins ógróin eða illa gróin láglendissvæði, með öðrum orðum láglendisauðnir eða eyðimerkur, þar sem yfirleitt er auðvelt að rækta nytjaskóg. Það sanna dæmi eins og finna má í Þjórsárdal, á Markarfljótsaurum, í Kelduhverfi, á Hólasandi, Hálsmelum í Fnjóskadal og víðar.
Hér á landi binst kolefni fremur hratt í gróðri. Mest er bindingin í ræktuðum skógum. Gera má ráð fyrir að bindingin geti numið að jafnaði 6 tonnum á hektara á ári. Mun hraðari og meiri binding verður í barrviðarskógum þar sem eru ræktaðar tegundir eins og sitkagreni, stafafura og lerki heldur en verður í nýsprottnum birkiskógi. Sama má segja um hraðvaxin og stórvaxin lauftré eins og alaskaösp. Þessar tegundir geyma því í sér miklu meira kolefni en birkið þótt það sé harðgert og standi sig vel við norðlægar aðstæður.
Ef aðalmarkmið landbóta er binding kolefnis liggur beint við að græða upp auðnir strax með skógi þar sem það er mögulegt. Binding kolefnis í skógi er margfalt meiri en það sem binst við uppgræðslu með grasfræi. Góður árangur hefur náðst hérlendis við ræktun lerkis, stafafuru og jafnvel sitkagrenis og fleiri tegunda í mjög rýru landi, og það þótt einungis sé lítillega borið á trén við gróðursetningu. Eftir það sér skógurinn um sig sjálfur og fer tiltölulega ungur að mynda fræ og breiðast út af sjálfsdáðum. Notkun niturbindandi jurta flýtir fyrir landbótunum, tegunda eins og lúpínu, smárategunda og sitkaelris til dæmis.
Í hugtakabanka loftslagsumræðunnar er til fyrirbæri sem gengur undir skammstöfuninni LULUCF og stendur fyrir losun og bindingu vegna landnotkunar, breytinga á landnotkun og skógræktar (Land use, land-use change and forestry). Töfluna hér fyrir neðan er að finna í sjöttu landsskýrslu Íslands um loftslagsmál sem kom út í maí. Þetta er heildaryfirlit yfir loftslagsmál á Íslandi sem þóðinni ber að skila til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Í skýrslunni er að finna ítarlega umfjöllun um m.a. losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi, rannsóknir, aðgerðir og áætlanir landsins í loftslagsmálum. Tafla þessi er á bls. 86 í skýrslunni.
Á töflunni sést hvernig hlutur skógarbindingar (ARD = Afforestation, reforestation & deforestation) fer vaxandi á Íslandi en hlutur landgræðslu (revegetation) verður smám saman hlutfallslega minni. Þróunin er með öðrum orðum sú að mikilvægi kolefnisbindingar í skógi eykst jafnt og þétt í kolefnisbókhaldinu en mikilvægi landgræðslu hægar samkvæmt spánni. Árið 2008 var hlutur landgræðslu mun meiri en skógræktar í þessu bókhaldi. Eins og sakir standa nú er binding í skógi litlu minni en binding með landgræðslu og árið 2030 er því spáð að áhrif skógræktar verði orðin talsvert meiri en landgræðslu. ETS er skammstöfun fyrir Emissions Trading System, viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir.
Skýrsluna alla má nálgast hér.
Til nánari fróðleiks má líka benda á að í Riti Mógilsár, rannsóknastöðvar skógræktar, tbl. 29/2013, er úttekt á kolefnisbindingu skógræktar á svæðum í eigu Landsvirkjunar. Smellið hér til að hlaða ritinu niður.