(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)
(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)

Undanfarin fjögur ár hefur Skógrækt ríkisins reiknað út hversu mikið stofnunin losar að kolefni. Teknar eru saman tölur um eldsneytiskaup á alla bíla og vélar stofnunarinnar, kílómetrafjöldi sem stofnunin greiðir starfsmönnum sínum vegna notkunar á einkabílum, notkun bílaleigubíla og kílómetrar í flugi á vegum stofnunarinnar.

Fyrir árið 2009 var niðurstaðan að Skógrækt ríkisins notaði 40.000 lítra af díselolíu, 15.000 lítra af bensíni, greiddi auk þess fyrir 39.000 mílna akstur einka- og bílaleigubíla og fyrir 191.000 mílur í flugi. Við þessa notkun losaði rekstur Skógræktar ríkisins 210 tonn af kolefni árið 2009. Eins og sjá má á meðfylgjandi töflu hefur stofnunin minnkað losun kolefnis
undanfarin fjögur ár.

Skógrækt ríkisins er með starfsemi um allt land og því fylgir talsverður akstur.Höfuðstöðvar stofnunarinnar eru á Egilsstöðum og því er talsvert flogið á milli Egilsstaða og Reykjavíkur auk þess er Skógrækt ríkisins í forsvari fyrir Íslands hönd í alþjóðasamstarfi um skógrækt. Er því um allmargar flugferðir til útlanda að ræða.

Samkvæmt mælingum Brynhildar Bjarnadóttur, sérfræðings á Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá, bindur ungur lerkiskógur í landi Vallanes á Fljótsdalshéraði 7,3 tonn af kolefni á hektara á ári miðað við þær niðurstöður þarf 28,7 hektara til að binda losun Skógrætar ríkisins árið 2009. Skógrækt ríkisins á yfir 5.000 hektara af gróðursettum skógi sem dugar vel fyrir þessari losun.

frett_26072010


Texti: Gunnlaugur Guðjónsson, fjármálastjóri
Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir, kynningarstjóri