Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra skógarmála, við
ensku eikina í Mörkinni á Hallormsstað. Hún er sögð
vera af slóðum Hróa hattar í Skírisskógi.
Vel heppnuð ráðherraheimsókn til Skógræktar ríkisins
Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gaf fyrirheit um það í opinberriheimsókn sinni til Skógræktar ríkisins á Fljótsdalshéraði í gær að hann myndi beita sér fyrir því að fé til skógræktar yrði aukið í fjárlögum næsta árs. Hann tók undir orð skógræktarstjóra um að grænna Ísland væri betra Ísland og að vinna þyrfti að landsáætlun í skógrækt.
Ráðherraheimsóknin hófst með því að ekið var frá Egilsstaðaflugvelli að Höfða á Völlum þar sem ráðherra og fyldarlið fékk fræðslu um kynbótaverkefni sem unnin eru á vegum Skógræktar ríkisins. Þröstur Eysteinsson, sviðstjóri þjóðskóganna, og Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður rannsókna, sögðu frá kynbótastarfinu, meðal annars þeim mikla árangri sem náðst hefur með lerki og alaskaösp. Þar sem staldrað var við á Höfða má bera saman lerkiblendinginn ‚Hrym‘ og lerkikvæmi sem algengt hefur verið að nota í íslenskri skógrækt. Þar sést hversu fallegur Hrymur er í samanburði, beinvaxinn og hraðvaxta. Á Höfða sagði Arnór Snorrason skógfræðingur líka frá verkefninu Íslenskri skógarúttekt sem hann stýrir. Þar er safnað grunngögnum vegna kolefnisbókhalds íslenskra skóga.
Næst var staldrað við í skógi á jörðinni Hafursá þar sem Þór Þorfinnsson skógarvörður, Bergrún Arna Þorsteinsdóttir aðstoðarskógarvörður og Lárus Heiðarsson skógræktarráðunautur tóku á móti hópnum. Útskýrt var hvernig skógur er grisjaður, fyrst með svokallaðri bilun eða millibilsjöfnun og síðan með frekari grisjun eftir því sem skógurinn stækkar. Rætt var líka um útkeyrslu efnis úr ungum lerkiskógum og nýtingu grisjunarefnisins. Þá fengu gestirnir líka að smakka á afurðum fyrirtækisins Holts og heiða sem framleiðir vörur úr afurðum skógarins, birkisafa, berjum og fleiru. Að sjálfsögðu var líka ketilkaffi í könnu og steiktar lummur á pönnu yfir eldi.
Á leiðinni inn að Hallormsstað kynnti Ólöf Sigurbjartsdóttir, framkvæmdastjóri Héraðs- og Austurlandsskóga, Landshlutaverkefni í skógrækt og það starf sem unnið hefur verið á Austurlandi undir þeim merkjum. Þar kom fram að í gildi væri nú 141 samningur um skógrækt við landeigendur eystra. Samningarnir næðu til um 15.400 hektara og eftir væri að gróðursetja í tvo þriðju þess, um 10.200 ha. Síðustu ár hefði verið gróðursett í um 170 ha. árlega og með þeim hraða tæki 60 ár að ljúka verkinu en samningar næðu þó aðeins til 40 ára. Ólöf greindi frá því að bilinu 4-6 nýjar umsóknir bærust árlega um þátttöku í verkefninu, fjárveitingin í ár væri 120 milljónir og gróðursetning ársins um 550 þúsund plöntur. Umhirða og grisjun væri líka stöðugt vaxandi liður í starfseminni og með auknum verkefnum ykist þörfin fyrir menntað og sérhæft fólki. Nú eru 3,7 stöðugildi hjá Héraðs- og Austurlandsskógum
Í sögunarmyllunni á Hallormsstað var sýnd timburvinnsla og meðal annars sagaður niður myndarlegur lerkibolur svo út komu falleg borð. Þór skógarvörður sagði frá því hvað væri unnið úr bolunum, hversu þykka boli þyrfti til að fletta borðvið og svo framvegis. Í máli hans kom fram að langt væri frá því að hægt væri að anna þeirri spurn sem væri eftir smíðavið úr skóginum en fyrirspurnir og pantanir væru margar. Ekki væri óalgengt að beðið væri um margfalt meiri við en mögulegt væri að útvega og þá þyrfti að vísa viðskiptavininum frá. Fyrir nokkru var sögunarmyllan stækkuð með viðbyggingu sem klædd var með óköntuðum viði úr skóginum, borðum sem ekki er sagað utan af svo að ójafn jaðarinn heldur sér.
Loks var farið í stutta göngu um trjásafnið í Mörkinni á Hallormsstað. Þar sýndi Þór skógarvörður ráðherranum helstu trjátegundir, meðal annars elstu trén sem gróðursett voru þar í byrjun síðustu aldar. Hann tíundaði hversu brösulega þetta hefði gengið fyrstu árin vegna takmarkaðrar þekkingar og reynslu á aðstæðum til skógræktar hérlendis. Einnig Staldrað var við hjá eik sem vaxið hefur í Mörkinni frá því um miðja síðustu öld og er líklega upp runnin í Skírisskógi á Englandi. Hún var lengi bara runni en hefur með hlýnandi veðurfari síðustu árin farið að vaxa upp í loftið og líkjast tré.
Við eikina ræddi Þröstur Eysteinsson um þær óskir sem forsvarsfólk Skógræktar ríkisins hefur sett fram um að haldið verði áfram því starfi sem hófst á síðasta kjörtímabili, að endurskoða lög um skógrækt. Hann lýsti líka þeirri skoðun stofnunarinnar að vinna þyrfti að landsáætlun í skógrækt sem yrði endurskoðuð reglulega með þátttöku sem flestra, innan og utan skógargeirans.
Bergrún Arna Þorsteinsdóttir kynnir fyrirtækið Holt og heiðar og framleiðsluvörur þess.">
Heimsókn Sigurðar Inga Jóhannssonar, ráðherra skógarmála, lauk með hádegisverði á Hótel Hallormsstað. Í rútunni á leið aftur út í Egilsstaði þakkaði Jón Loftsson skógræktarstjóri ráðherranum og fylgdarliði hans fyrir komuna og sagðist ala þá von í brjósti að nú færi samdráttarskeiði í skógrækt hérlendis að ljúka enda væri trú hans að grænna Ísland væri betra Ísland. Ekki mætti bíða öllu lengur með að auka framlög til skógræktar. Atvinnugreinin sem er að byggjast upp við vinnslu trjáviðar úr íslenskum skógum mætti ekki við því að eftir nokkra áratugi drægi skyndilega úr framboði á trjáviði úr skógunum vegna samdráttarskeiðs í nýskógrækt á okkar dögum. Ráðherra sagðist sammála skógræktarstjóra um að grænna Ísland væri betra Ísland og færði skógræktarfólki þau gleðitíðindi að hann myndi leggja til á fjárlögum næsta árs að framlög til nýskógræktar yrðu aukin á ný. Einnig styddi hann gerð nýrra skógræktarlaga og hugmyndina um landsáætlun í skógrækt.