Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, handsalar kaupin á söginni við Ei…
Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, handsalar kaupin á söginni við Einar Guðmundsson hjá Búvís.

Viðarvinnsla vaxandi þáttur í starfsemi félagsins

Skógræktarfélag Eyfirðinga fékk nú í vikunni afhenta nýja stórviðarsög sem á eftir að gjörbreyta aðstöðu félagsins til viðarvinnslu í Kjarnaskógi. Segja má að sögin vinni sjálf fyrir eigin húsaskjóli því á næstunni rís skýli yfir hana og efnið í það verður unnið með þessu nýja tæki.

Frá þessu er sagt á vef félagsins, kjarnaskogur.is. Þar kemur fram að sögin sé af gerðinni Woodmizer og mun öflugri og afkastameiri en sögin sem félagið hefur notað fram að þessu. Í fréttinni segir jafnframt:

Viðarvinnsla hefur verið vaxandi þáttur í starfsemi Skógræktarfélags Eyfirðinga undanfarin ár. Nú er svo komið að sögin sem félagið hefur notað um árabil ræður vart við verkefnið lengur. Þörf er á hraðvirkari og öflugri sög, meðal annars til þess að hægt sé að fletta meira timbri á hverri vinnustund enda verður efnið því dýrara sem lengur tekur að vinna það.

Eftir því sem trén í skógum Skógræktarfélags Eyfirðinga stækka gefast meiri tækifæri til flettingar á íslenskum viði í borð og planka. Félagið sagar þó ekki einungis timbur úr Kjarnaskógi og öðrum reitum sem félagið hefur umsjón með heldur er timbur farið að berast úr öðrum skógum í nágrenninu og sömuleiðis úr bæjarlandi Akureyrarbæjar. Viðurinn fellur að mestu til við grisjun skóganna en einnig þegar tré eru felld í görðum. Til dæmis berast félaginu æ stærri og sverari asparbolir og til sögunar á slíkum trjám duga engin tómstundaverkfæri.

Í undirbúningi er að reisa skýli yfir sögina nýju á athafnasvæði Skógræktarfélagsins í Kjarna. Sléttaður hefur verið völlur undir skýlið spölkorn sunnan við húsnæði félagsins og þar ætti sögin að komast undir þak á næstu mánuðum. Skýlið verður að sjálfsögðu klætt með heimafengnu timbri sem sagað verður með nýju söginni. Því má segja að sögin eigi eftir að vinna sjálf fyrir eigin húsaskjóli.

Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar sögin nýja var flutt í Kjarnaskóg. Um verkið sáu umboðsmenn Woodmizer á Íslandi, Einar Guðmundsson og Gunnar Guðmunds hjá Búvís. Einar og Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, handsöluðu kaupin formlega standandi uppi á vörubílspalli við sögina með trén í elsta hluta Kjarnaskógar í baksýn.




Myndir af vef Skógræktarfélags Eyfirðinga