Svo hljóðar 1. grein laga um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands sem sett voru fyrir 100 árum eða hinn 22. nóvember 1907. Eins og sjá má bæði af heiti laganna og leiðarstefi þeirra, eins og það birtist í greininni, var snemma horft til framtíðar varðandi landvernd á Íslandi í því skyni að verja landið skemmdum. Þessi markmið eru enn í fullu gildi en til viðbótar hafa komið ný gildi skógræktar sem nú er eitt af öflugustu verkfærum mannsins í baráttunni gegn skaðlegum áhrifum svokallaðra gróðurhúsalofttegunda.

 

Sumum þykir miða hægt í skógrækt á Íslandi en skógur þekur nú aðeins um 1,3% af landinu. Markmið okkar er að tvöfalda það hlutfall á næstu hundrað árum. En skógrækt er langtímaverkefni og í raun má segja að það að rækta skóg sé ekki ósvipað lífshlaupinu sjálfu. Hringurinn í stofninum er einn helsti mælikvarði sem skógræktarfólk hefur á starf sitt. Einn hringur á ári. Og þannig áfram; hring eftir hring. Enda sagði Hannes Hafstein þegar hann mælti fyrir setningu laganna á Alþingi 1907: ,, Þetta frumvarp má skoða sem nokkurs konar mælikvarða fyrir trúnni á framtíð þessa lands og viljann til að leggja nokkuð á sig fyrir þá, sem hér eiga að lifa á ókomnum tímum.“

 

Hugsjónafólk

 

Íslensk skógrækt hefur frá upphafi verið byggð á hugsjónum þess fólks sem lætur sig varða náttúru Íslands og eins og Hannes Hafstein benti réttilega á, framtíð lands og þjóðar. En um leið hefur það getað notið þess athvarfs sem skógræktin gefur, bæði líkama og sál. Fátt nærir andann betur en kyrrðarstund í skógi þar sem blandaðir söngfuglakórar halda hverja stórtónleikana á fætur öðrum. Og er það ekki í sjálfu sér dálítið merkilegt að söngur fuglanna skuli teljast með kyrrðinni?
 

Kyrrðarstundir með fuglum eru forréttindi okkar sem göngum skóginn í leit okkar að nýjum slóðum til að yrkja. Um leið er gaman að velta fyrir sér dæmum um þau orð sem íslenskan býr yfir. Lundur, skógur, lauf og rjóður eru allt þægileg orð sem bera með sér vorljómann og hlýjuna sem ilmandi skógur færir okkur á hverju ári.

 

Átakalínur

 

Óhætt er að segja að hvort tveggja hafi tekið stakkaskiptum, á þeim 100 árum sem liðin eru frá því lög um skógrækt voru fyrst sett hér á landi; samfélagið og menningin. Ný hugtök ryðja sér til rúms, táknmyndir nýrra tíma og skógurinn lifir með þjóðinni gegnum súrt og sætt. Þar má til dæmis nefna orð eins og kolefnisjöfnun. Átakalínur hafa myndast og deilt er um notkun hugtaka eins og ,,grænir bílar“. Slík átök eru eðlilegur hluti af þróun samfélags og tungutaks og bera vitni þeim umbrotatímum sem við búum við. Þar má segja að skógrækt sé ,,sígrænn vitnisburður“ um mikilvægi þeirra grundvallarhugmynda sem lögleiddar voru á Alþingi fyrir 100 árum.
 

Sá stofn sem lagasetningin árið 1907 myndaði telur nú 100 árhringi. Skógræktarfólk og skógrækt mun gegna lykilhlutverki í þróun umhverfismála um ókomin ár, ekki síður en á þeirri öld sem liðin er frá setningu fyrstu laganna. Jafnvel mun skógrækt gegna enn mikilvægara hlutverki í framtíðinni en nokkurn hefur grunað. Fyrir hönd Skógræktarfélags Íslands þakka ég öllum þeim, lífs og liðnum, sem lagt hafa hönd á þennan mikilvæga plóg frá því umræða hófst fyrst um þá lagasetningu sem hér hefur verið gerð að umtalsefni. Um leið hvet ég þjóð mína til enn frekari dáða í skógrækt næstu hundrað árin.

 

Höfundur er formaður Skógræktarfélags Íslands.