Myndir sem birtust í BS-ritgerð Sigríðar Hrefnu Pálsdóttur 2018 af hliðum í nokkrum skógarreitum ung…
Myndir sem birtust í BS-ritgerð Sigríðar Hrefnu Pálsdóttur 2018 af hliðum í nokkrum skógarreitum ungmennafélaganna
Grein eftir Daníel Godsk Rögnvaldsson, meistaranema í sjálfbæri minjastjórnun við Árósaháskóla

Í árdaga Ungmennafélags Íslands voru aðildarfélögin vítt og breitt um landið ekki síður skógræktarfélög en íþróttafélög. Vísbendingu um mikilvægi skógræktar í starfseminni á upphafsárum ungmennafélaganna má sjá í ákalli þess til félagsmanna sinna árið 1909:

„Ísland skógi vaxið á ný er svo fögur hugsjón, að hún ætti að brenna dáð og dug til framkvæmda inn í æskulýðinn. Verkin verða að bera þess merkin, að vér viljum Íslandi alt!“[1]

Víða var það eitt af grunnmarkmiðum félaganna að vinna að skógrækt og sum þeirra vinna að henni enn þann dag í dag. Í lögum Ungmennafélags Íslands er skógrækt enn eitt meginhlutverka félagsins, þó áherslan hafi færst.[2] Um allt land urðu þannig til skógarreitir af öllum stærðum og gerðum, gróðursettir af ungmennafélögunum, og talið er að heildarfjöldi slíkra reita sem ræktaðir voru geti verið upp undir fimm hundruð.[3] Örlög þessara reita eru með æði fjölbreyttum hætti; sums staðar tóku skógræktarfélög við keflinu, einhverjir eru glataðir og aðrir hafa fallið í gleymskunnar dá.

Á tíunda áratugnum Gerði Björn B. Jónsson afar merkilega úttekt á þessum reitum sem enn voru í umsjón ungmennafélaganna. Sumrin 1993-1995 gerði hann úttekt á 113 reitum. Aðgengi almennings að þessari úttekt er ekki gott og tími var kominn á nýja úttekt. Skógfræðingurinn og þáverandi skógfræðineminn Sigríður Hrefna Pálsdóttir svaraði kalli frá Ungmennafélagi Íslands og hóf gerð nýrrar úttektar á þessum skógræktarreitum sem hluta af lokaverkefni sínu til bakkalárgráðu í skógfræði sumrin 2016 og 2017. Verkefnið var meðal annars kynnt á Fagráðstefnu skógræktar 2018 þar sem ráðstefnugestir gátu „heimsótt“ reitina með aðstoð sýndarveruleikagleraugna. Áhugasamir geta lesið ritgerð Sigríðar hér.

Ungmennafélagsandinn ríkjandi í skógrækt á árum áður

Skógarreitir ungmennafélaganna flokkaðir í átta flokka eftir hlutverki eða umfangi skógar. Þessi greining nær til allra reita sem teknir voru út 2016-2017 (93). Mynd úr Arcmap: Sigríður Hrefna PálsdóttirEftir að Sigríður hafði boðið sig fram til starfans varð henni fljótt ljóst að hún yrði í það minnsta ekki verkefnalaus næstu tvö sumur. Fyrsta verk hennar var að finna skógræktarreitina sem Björn hafði tekið út. Það gat oft reynst erfitt, segir hún, og oftar en ekki eina haldreipið handteiknuð kort og örstutt staðarlýsing. Hún reyndi að máta kortin við loftmyndir sem gekk upp og ofan. Örfáir reitir fundust alls ekki og voru þá ef til vill horfnir. Flestir reitirnir fundust þó og þá voru gerðar staðlaðar athuganir með nokkrum spurningum sem leitað var svarað við fyrir hvern þeirra. Reitirnir þekja ekki mikið land en gegna oft mikilvægu hlutverki þar sem þeir eru. Þannig veita margir þeirra skjól fyrir ýmiss konar starfsemi á borð við tjaldsvæði, íþróttavöll eða samkomur. Athygli vakti hve margir reitanna voru minningarreitirnir, þar sem plantað hafði verið til minningar um einhvern sem hafði kvatt. Skógurinn við félagsheimilið Hjaltalund í Hjaltastaðaþinghá fyrir austan er dæmi um reit sem plantað var af ungmennafélögunum og er orðinn sérlega mikilvægur heimafólki og notaður við ýmis tilefni. Hollvinir staðarins hirða um skóginn svo eftir því er tekið og er lundurinn mikil sveitarprýði.

Reitirnir sem Sigríður gerði úttekt á voru 93 talsins, lítið færri en við upphaflega úttekt Björns. Samtals þöktu þeir um 65 hektara lands. Örlög reitanna í dag eru með æði ólíkum hætti, og eins eru þau hlutverk sem þeir gegna í dag mjög ólík. Hún tók saman hlutverkin sem þeir gegna í dag og er skemmtilegt að sjá hversu fjölbreytt þau eru. Allt frá skjólbeltum við íþróttavelli til lunda sem veita syrgjendum skjól í kirkjugörðum landsins. Á meðfylgjandi korti má sjá hlutverk nokkurra reita og dreifingu um landið.

Aðspurð hverjar hún telji ástæður þess að ungmennafélögin um allt land hafi tekið til við skógrækt og landgræðslu sem eitt af sínum aðalmarkmiðum segist hún vel muna eftir lítt grónum melum á sínum uppvaxtarárum. Þegar ungmennafélögin urðu til hafi ástandið verið enn verra. Víða hafði land blásið upp og ljóst að til mikils var að vinna með skógrækt svo að í það minnsta nágrenni þéttbýlisstaða gæti orðið lífvænlegra dýrum og mönnum. Sigríður telur að skógrækt ungmennafélaganna hafi verið ákveðin sjálfstæðisbarátta. „Það átti bara að efla allt,“ og skógrækt hafi verið mikilvægur þáttur í því að græða land og þjóð. Það hafi verið ákveðin leið til að sýna dug sinn og hugsjón í verki að rækta örlítinn lund. Ekki hafi þó allir verið hrifnir af uppátækinu og skógrækt hafi alltaf haft sína efasemdarmenn, sér í lagi meðan ekki var orðið ljóst hvort skógur gæti yfir höfuð þrifist á landinu.

Ungmennafélagsandi í skógræktarfélögum í dag

Sigríður Hrefna kynnti rannsókn sína á Fagráðstefnu skógræktar í Hofi Akureyri 2018 og leyfði fólki að litast um í ungmennafélagsreitum með hjálp sýndarveruleikabúnaðar. Ljósmynd: Pétur HalldórssonSigríður er nú formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga og líf hennar snýst því þessa dagana að töluverðu leyti um skógrækt og skóga fjarðarins. Hún telur að ungmennafélagsandinn sé enn á vissan hátt til staðar í skógræktarfélögum Íslands. Áherslan sé meir og meir að færast úr því að planta trjám og í að sinna því skóglendi sem til staðar er. Vinnan sem fari í verkefnin sem félagsmenn inni af hendi fyrir almannahagsmuni sé ómælanleg og eftir því sé tekið. Fyrir stuttu náði félagið metnaðarfullu söfnunarmarkmiði sínu þegar það safnaði rúmlega fjörutíu milljónum króna til kaupa á nýjum snjótroðara. Þar lögðu hönd á plóg einstaklingar, samtök og fyrirtæki í héraðinu til þess að þjóna mætti mikilvægu útivistarsvæði Kjarnaskógar með sóma á veturna. Söfnunin varpar ljósi á hversu mikilvægur Kjarnaskógur er fyrir bæjarbúa og aðra nágranna. Ef til vill er það til marks um að ungmennafélagsandinn sé enn við lýði í skógræktarhreyfingunni en ekki bara draugur sem er kveðinn upp á tyllidögum.

Heimildir:

[1] Skinfaxi 1909 tölublað 2
[2] Lög Ungmennafélags Íslands, 3. grein
[3] Jón M. Ívarsson, Vormenn Íslands bls. 294-296.
Texti: Daníel Godsk Rögnvaldsson
Vefstjórn: Pétur Halldórsson