Skógræktarritið, félags- og fræðslurit Skógræktarfélags Íslands, fyrra hefti ársins 2004, er komið út.

Í reynd er Skógræktarritið fagrit allra þeirra sem stunda skóg- og trárækt í minni eða stærri stíl og endurspeglar þá miklu grósku sem er í skógrækt á Íslandi.

Fyrra hefti Skógræktarritsins árið 2004 er stórglæsilegt, prýtt fjölda fallegra litmynda og á kápu er mynd af einstæðu olíumálverki Jóhannesar S.Kjarvals, "Í Hallormsstaðaskógi" frá árinu 1922. Verkið var í eigu Guttorms Pálssonar skógarvarðar á Hallormsstað og hékk á skrifstofu hans í 80 ár og vissu fáir af henni. Börn Guttorms gáfu Minjasafni Austurlands þessa einstöku mynd Kjarvals. Búið er að gera við myndina og hreinsa hana.

Fjölmargar áhugaverðar greinar eru í ritinu. Nefna má ítarlega samantekt Sigurðar Blöndal, fyrrverandi skógræktarstjóra, í greinaflokkinum ?Innfluttu skógartrén?, þar sem fjallað er um sitkagreni og hvítgreni, umfjöllun Jóhanns Pálssonar, fyrrverandi Garðyrkjustjóra í Reykjavík, um bergfuru, grein Þorkels Jóhannessonar, læknis og fyrrv. prófessors, um ?Friðun Heiðmerkur og fyrstu trjáræktartilburði? og grein eftir Ragnar Olgeirsson, fyrrverandi formann Skógræktarfélags Borgarfjarðar og Davíð Pétursson, oddvita á Grund í Skorradal um "Skógræktarferð til Noregs 1964". Birt er þar frásögn um ferðina eftir Jóhannes Sigfinnsson, bónda á Grímsstöðum við Mývatn, sem þá var fréttamaður Morgunblaðsins.


Skógræktarritið er selt í áskrift en einnig í lausasölu á skrifstofu S.Í. að Ránargötu 18. Áskrifta- og heimsendingasími S.Í. er 551 8150, netfang skog@skog.is.