Frá afhendingu viðurkenninga á hátíð Sameykis. Edda Sigurdís Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknasviðs S…
Frá afhendingu viðurkenninga á hátíð Sameykis. Edda Sigurdís Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknasviðs Skógræktarinnar, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Skógræktarinnar og hana má sjá aðra frá hægri á myndinni. Ljósmynd: sameyki.is

Sameyki, stéttarfélag í almannaþjónustu, hefur birt niðurstöður úr könnun sinni á starfsumhverfi fólks í opinberri þjónustu hjá ríki, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum árið 2021. Í flokki meðalstórra stofnana með 40-89 starfsmenn lenti Skógræktin í fimmta sæti og telst þar með vera fyrirmyndarstofnun. Þetta er í annað sinn sem Skógræktin fær sæmdarheitið fyrirmyndarstofnun en stofnunin hefur allt frá sameiningu 2016 alltaf verið meðal 10 efstu í sínum flokki.

Merki fyrirmyndarstofnunar 2021Í flokki meðalstórra stofnana eru fimm stofnanir útnefndar fyrirmyndarstofnanir. Menntaskólinn á Egilsstöðum lenti í fyrsta sæti og er því stofnun ársins í sínum flokki. Því næst koma Ríkisendurskoðun, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra og Skógræktin sem fá sæmdarheitið „fyrirmyndarstofnun“. Allar þessar stofnanir voru í flokki stórra stofnana í síðustu mælingu, nema Menntaskólinn á Egilsstöðum. Ríkisendurskoðun var þá í fjórða sæti, Fjölbrautarskólinn í Garðabæ í öðru sæti, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra var í þriðja sæti og Skógræktin í því níunda.

Þættir sem mældir voru í könnuninni voru stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki í vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægja og stolt og að síðustu jafnrétti. Heildareinkunn Skógræktarinnar 2021 var 4,31 en var 4,24 2020.

Hæsta einkunn fær Skógræktin fyrir jafnrétti, einkunnina 4,60, og af fyrirmyndarstofnunum fimm í flokki meðalstórra stofnana er það einungis Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra sem fær hærra fyrir jafnrétti. Lægst fær Skógræktin fyrir launakjör rétt eins og í fyrri könnunum, 3,42. Þó hefur sú einkun hækkað úr 3,19 frá síðustu könnun 2020. Flestar einkunnirnar eru þó á svipuðu róli og í síðustu könnun en tölur hafa hækkað í sjö af níu atriðum sem spurt var um. Örlítið lægri einkunn er nú fyrir starfsanda og sveigjanleika vinnu en varla marktækur munur. Í eftirfarandi töflu má sjá tölurnar frá 2020 og 2021.

Taflan sýnir niðurstöður könnunarinnar hjá Skógræktinni fyrir árin 2020 og 2021.

Um könnunina

Valið á stofnun ársins 2021 var tilkynnt á hátíð Sameykis 16. mars en titlana „stofnun ársins“ og „stofnun ársins - borg og bær“ hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr í þeim þáttum sem könnun Sameykis náði yfir að mati starfsmanna þeirra. Stofnanir ársins 2021 eru Heilsustofnun NFLÍ, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Jafnréttisstofa og Frístundamiðstöðin Tjörnin. Hástökkvarar ársins eru Ríkiskaup og Frístundamiðstöðin Miðberg.

Könnunin náði til um 31 þúsund starfsmanna í opinberri þjónustu, bæði hjá ríki, sveitarfélögunum og sjálfseignarstofnunum. Hún er unnin í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið og mannauðsdeild Reykjavíkurborgar og gefur mikilvægar upplýsingar um stöðu starfsmanna á opinbera vinnumarkaðnum. Í henni eru þátttakendur spurðir út í níu þætti í starfsumhverfinu, þ.e. trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti. Markmiðið með að velja fyrirmyndarstofnanir er að hvetja stjórnendur stofnana til að huga að mannauðsmálum og auka umræðu um aðbúnað og líðan starfsmanna á vinnustöðum. Alls fengust gild svör frá rúmlega 13.300 starfsmönnum og svarhlutfallið var 43 prósent.

Frétt: Pétur Halldórsson