Sýningin Íslenskur landbúnaður 2018 hefst í Laugardalshöll í Reykjavík föstudaginn 12. október og stendur fram á sunnudag. Skógræktin tekur þátt í sýningunni en einnig verða Landssamtök skógareigenda með bás og fleiri sem tengjast skógrækt á beinan og óbeinan hátt.

Merki sýningarinnar Íslensks landbúnaðar 2018Skógrækt hefur nú fengið byr undir báða vængi eftir að stjórnvöld tilkynntu um stóraukin fram­lög til skógræktar, landgræðslu og endur­heimt­ar votlendis í nýrri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Fram undan er aukin skógrækt og má gera ráð fyrir að blásið verði til sóknar á öllum sviðum skógræktar, hvort sem það er skógvernd og útbreiðsla birkiskóga, nytjaskógrækt eða hrein kolefnisskógrækt. Í samfélaginu gætir aukins áhuga á skógrækt enda er hún örugg og árangurs­rík leið til þess að binda koltvísýring um leið og hún bætir landið og byggir upp auðlind til framtíðar.

Í bás Skógræktarinnar á sýningunni í Laugar­dals­höll verða ráð­gjafar til viðtals og veita upp­lýs­ing­ar um skóg­rækt á lögbýlum en einnig sér­fræð­ing­ar frá Mógilsá, rannsóknasviði Skóg­rækt­ar­inn­ar. Leitast verður við að kynna hlutverk og starfsemi stofnunarinnar og gefa upplýsingar, einkum um þá möguleika til skóg­rækt­ar sem landeigendum standa til boða og möguleikum á bindingu kolefnis í ís­lensk­um skógum. Sýndar verða glærur um skógrækt og skóg­rannsóknir en einnig verða til sölu við vægu verði ný veggspjöld með íslenskum skógarfuglum og dagatal Skógræktarinnar 2019 sem er á sama anda, með íslenskum skógarfuglum. Í sýningar­básnum verður að sjálfsögðu myndarlegt tré úr íslenskum skógi sem gestir geta dáðst að - eða faðmað.

Í tengslum við sýninguna er fyrirlestrardagskrá í boði og er rétt að benda á fyrirlestur Hlyns Gauta Sig­urðs­sonar, framkvæmdastjóra Landssamtaka skógareigenda, og Tryggva Stefánssonar, eiganda Svarma ehf. Þeir fjalla um notkun dróna við kort­lagn­ingu, skipulag, úttektir og rannsóknir í skógrækt. Titill fyrir­lest­urs­ins er Skógarauðlindin - flug til framtíðar og hann er á dagskrá kl. 11 á sunnudag.

Tæplega eitt hundrað sýnendur verða með bás á þessari sýningu sem hefst með opnunarhófi kl. 13 á föstudag. Þann dag verður opið til kl 19, á laugardag milli 10 og 18 og á sunnudag 10-17. Keyptir miðar gilda alla helgina en miðaverð er kr. 1.000 og ókeypis fyrir aldraða, öryrkja, námsmenn og börn yngri en 12 ára í fylgd með fullorðnum. Félagsmenn í Bændasamtökum Íslands fá senda boðsmiða á sýninguna sem gilda alla sýningardagana. Tímarit Bændablaðsins kemur út nú í vikunni og verður blað sýningarinnar

 

Texti: Pétur Halldórsson