Hreppsnefnd Biskupstungna færir BYKO 25 aspir í afmælisgjöf á aldarfjórðungsafmæli þess 14. júní 1987. Hér búa þeir sig undir að planta fyrstu öspinni með hjálp hreppsnefndarmanna, Jón H. Guðmundsson, þáverandi forstjóri (lengst til v.), og Guðmundur H. Jónsson stjórnarformaður (3. frá h.). Ljósmynd úr Skógræktarritinu 1-2012
Skrifað hefur verið undir samning milli Skógræktarinnar og BYKO um mat á bindingu skógræktar og náttúrulegra birkiskóga í landi fyrirtækisins að Drumboddsstöðum í Biskupstungum. Náttúrulega birkið hefur breiðst mikið út á rúmum 30 árum og flatarmál þess rúmlega þrefaldast. Meðalhæð birkisins hefur líka hækkað.
Að sögn Berglindar Óskar Ólafsdóttur, verkefnastjóra umhverfismála hjá BYKO, vinnur fyrirtækið hörðum höndum að því að sýna samfélagslega ábyrgð og sé úttektin á skóginum að Drumboddsstöðum sé einn liðurinn í því. Einstakt sé að fyrirtæki eigi slíka auðlind sem þessi skógur er og stuðli fyrirtækið þarna að kolefnisbindingu á móti þeirri losun sem hlýst af rekstrinum.
BYKO hefur að sögn Berglindar unnið að umhverfismálum um langan tíma. Nú eru til að mynda liðin rúm 30 ár síðan fyrirtækið hóf gróðursetningu í land sitt að Drumboddsstöðum. Nú sé kominn tími til að meta hversu mikil binding er í skóginum og koma réttum tölum í umhverfisbókhald BYKO, segir Berglind.
Skógræktaráhugi frumkvöðlanna
Sögu skógræktar á vegum BYKO að Drumboddsstöðum má rekja til Guðmundar H. Jónssonar, annars stofnenda Byggingavöruverzlunar Kópavogs. Skógræktaráhugi hans og annarra í þeim fjölskyldum sem komu BYKO á legg varð kveikjan að því að fyrirtækið fór að leita að hentugu skógræktarlandi þar sem rækta mætti nytjaskóg og skila þannig til baka til náttúrunnar í stað þess timburs sem fyrirtækið seldi í verslunum sínum, eins og sagt er frá í grein Áskels Arnar Kárasonar í fyrra tölublaði Skógræktarritsins árið 2012. Þar er rakin saga skógræktar BYKO að Drumboddsstöðum. Hún hófst formlega 14. júní 1987 á 25 ára afmæli fyrirtækisins með því að Sigurður Blöndal, þáverandi skógræktarstjóri, gróðursetti fyrstu grenitrén á svæðinu. Síðan hefur bæði verið gróðursettur nytjaskógur og birki breiðst mikið út af sjálfsdáðum.
Starfsmenn BYKO fóru árlega að Drumboddsstöðum til að gróðursetja þar tré allt fram til ársins 2007. Til stendur að endurvekja þá hefð, fyrst og fremst út frá gleðilegum gildum sem einkenndu þessar árlegu ferðir, segir Berglind, en um leið í þeirri viðleitni að gera enn betur en að stuðla að kolefnishlutleysi rekstrar.
Hlutverk Skógræktarinnar
Skógræktin tekur nú að sér verkefni fyrir BYKO sem felst í gagnaöflun og úrvinnslu gagna. Arnór Snorrason og Björn Traustason á loftslagsdeild rannsóknasviðs Skógræktarinnar hafa að undanförnu viðað að sér gögnum um bæði ræktaða skóginn og náttúrulega birkiskóginn á Drumboddsstöðum. Fyrir liggur kortlagning Skógræktarinnar af öllum birkiskógum í landinu sem gerð var á árunum 2010-2014. Einnig er fyrir hendi gróf afmörkun á ræktuðum skógi, bæði í gagnagrunni Skógræktarinnar og gögnum skógræktarráðunauts Skógræktarinnar á Suðurlandi. Við samanburð á þeim gögnum og gögnum Sigvalda Ásgeirssonar skógfræðings frá 1988 kemur ýmislegt í ljós:
-
Náttúrulegi birkiskógurinn og kjarrið þakti um 54 ha lands 1988 en var nokkuð gisinn. Þekjuvegið flatarmál miðað við 100% krónuþekju var þá tæpir 27 ha. Sigvaldi skráði einnig að náttúrulegt birki væri byrjað að dreifa sér á 57 ha til viðbótar. Flatarmálsvegin hæð birkisins var 1,6 m. Nú, 30 árum seinna, er flatarmál náttúrulega birkisins 188 ha og miðað við 100% þekju er flatarmál þess 88 ha. Það hefur sem sagt rúmlega þrefaldast! Meðalhæðin hefur líka aukist frá 1,6 m í 2,2 m á þessum tíma. Þetta sýnir hversu mikil áhrif beitarfriðun getur haft á sjálfgræðslu birkis.
-
Hvað varðar ræktuðu skógana hafði aðeins verið gróðursett í 4 ha að Drumboddsstöðum haustið 1988. Samkvæmt mati Arnórs og Björns er flatarmál ræktaðra skóga nú um 45 ha. Ræktuðu skógarnir hafa því tífaldast að flatarmáli.
Nú í haust verður unnið bindingarmat til bráðabirgða út frá þessum fyrirliggjandi upplýsingum. Frekari vinna við mat á bindingu skóglendisins að Drumboddsstöðum fer svo fram næsta sumar og haust. Lokaskýrslu er síðan að vænta í lok næsta árs.
Nánari upplýsingar gefa Berglind Ósk Ólafsdóttir í síma 822 7003, netfang berglind@byko.is, og Arnór Snorrason í síma 894 1453, netfang arnor@skogur.is.