Þessi mynd frá fyrstu áratugum 20. aldar sýnir veiklulegar birkiskógaleifarnar í Ásbyrgi sem friðaðar voru 1927 þegar Skógræktin tók við Ásbyrgi. Nú er þarna vöxtulegur birkiskógur sem hefur breiðst mikið út, hækkað og þést. Ljósmynd úr safni Skógræktarinnar
Í dag var undirritaður samningur á milli Skógræktarinnar og Vatnajökulsþjóðgarðs um umsjón Ásbyrgis í Kelduhverfi. Samkvæmt samningnum færist formleg umsjón jarðarinnar allrar og mannvirkja á henni frá Skógræktinni til Vatnajökulsþjóðgarðs. Vatnajökulsþjóðgarður og Skógræktin eiga engu að síður áfram með sér samstarf um innri hluta Ásbyrgis og land Ásbyrgis norðan þjóðvegar.
Jörðin Ásbyrgi, eða Byrgi eins og hún hét áður, á sér athyglisverða sögu. Lengi vel var hún eign Ásverja og hluti af Ási, en síðar meir sjálfstæð bújörð. Árið 1907 komst Ásbyrgi í eigu athafnamannsins og stórskáldsins Einars Benediktssonar, ásamt jörðinni Ási. Talið er að með kaupunum hafi hann viljað tryggja sér vatnsréttindi í Jökulsá á Fjöllum, en þó voru engin slík réttindi sem fylgdu Ásbyrgi. Einar seldi jarðirnar haustið 1923 og þremur árum síðar komst Ásbyrgi í eigu Kelduneshrepps. Hreppurinn seldi jörðina ríkissjóði árið 1928 og var hún upp frá því í umsjá Skógræktar ríkisins.
Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum var stofnaður 1973. Ásbyrgi var þá utan þjóðgarðs, en varð hluti af honum árið 1978 með samvinnusamningi milli þáverandi Náttúruverndarráðs og Skógræktar ríkisins. Hélst sá samningur óbreyttur er Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum færðist undir Vatnajökulsþjóðgarð árið 2008.
Friðun skógarleifa 1927
Skógræktin keypti jörðina Ásbyrgi árið 1927 og friðaði skógarleifarnar í Byrginu sama ár. Hákon Bjarnason skógræktarstjóri lýsir aðstæðum þannig 1936: „Friðunin í Ásbyrgi kom á elleftu stundu, því að gömlu skógarnir, Leirtjarnarskógur og Botnsskógur, voru á fallandi fæti. Nýgræðingur var þar lítill sem enginn, en land mjög notað til beitar. Gömlu trén voru að kveðja lífið fyrir elli sakir. En nú (1936) er nýgræðingurinn að færast óðfluga um allt Byrgið, aðeins átta árum eftir að friðun komst á.“
Árið 1974 var þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum stofnaður og varð Ásbyrgi strax hluti hans, enda náttúruleg aðkomuleið að þjóðgarðinum. Svo var ákveðið að gera þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum að hluta Vatnajökulsþjóðgarðs árið 2008. Áfram tilheyrði Ásbyrgi þó Skógræktinni með samstarfi við þjóðgarðinn um umsjón með svæðinu. Nú hefur fyrirkomulaginu hins vegar verið breytt en sem fyrr segir eiga Vatnajökulsþjóðgarður og Skógræktin eiga engu að síður áfram með sér samstarf um innri hluta Ásbyrgis og land Ásbyrgis norðan þjóðvegar.
Trjárækt í skóginum
Yst í Ásbyrgi er móagróður en innar er fjölbreyttur og þroskamikill birkiskógur með óvenjumiklu ívafi reyniviðar. Á árunum milli 1950 og 1980 var nokkuð gróðursett af innfluttum trjátegundum í Ásbyrgi, einkum rauðgreni, blágreni, hvítgreni, lerki og skógarfuru. Nú er stefnan hins vegar sú að gróðursetja ekki meira en viðhalda sem víðast fjölbreyttum blandskógi af birki, reyniviði og gróðursettu tegundunum. Með tímanum mun gróðursettu trjánum smám saman fækka við eðlilega grisjun.
Samningurinn sem undirritaður var í dag hefur ekki í för með sér neinar grundvallarbreytingar fyrir starfsemi í Ásbyrgi. Þó er viðbúið að hann muni einfalda ýmsa ferla, svo sem vegna gerðar nýs deiliskipulags sem hefur verið í pípunum í þó nokkurn tíma.