Vart mælast lengur stormar miðsvæðis í Reykjavík vegna byggingar nýrra húsa og aukinnar gróðursældar. Í kringum 1970 mældust stormar álíka oft í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli. Morgunblaðið fjallar um málið og ræðir við Harald Ólafsson, prófessor í Veðurfræði við Háskóla Íslands, sem var einn frummælenda á ráðstefnunni „Tímavélinni hans Jóns“ sem haldin var á Egilsstöðum í janúar.
Á síðustu árum og áratugum hafa stormar reynst tíðir í Keflavík en fátítt er að vindhraði fari yfir 20 metra á sekúndu í Öskjuhlíð í höfuðborginni. Þetta er meðal þess sem fram kom í fyrirlestri Haraldar Ólafssonar, prófessors við Háskóla Íslands, á ráðstefnu á Egilsstöðum um skógrækt á Íslandi.
„Þetta hefur haft gríðarleg áhrif á veðurfar á stóru svæði í Reykjavík og þegar ég segi stóru svæði þá á ég við marga ferkílómetra þar sem byggð er einna þéttust í Reykjavík,“ segir Haraldur. Hann segir að ekki megi vanmeta uppbyggingu húsa og vöxt trjáa í þessu samhengi.
„Skjólið er víðtækt. Smám saman brotnar vindurinn niður þegar hann lendir á veggjum og trjágróðri,“ segir Haraldur og bætir við. „Það er ljóst að Reykjavík var á veðursælum stað áður en borgin byggðist og trén uxu og er borgin núna líklega með veðursælustu stöðum á Íslandi.“
Leitun að annarri eins borg
Veðurmælingar Veðurstofunnar fara fram á túni við hús stofnunarinnar á Bústaðavegi. Hann bendir á að næsta nágrenni vindmælanna hafi lítið sem ekkert breyst en engu að síður mælast stormar mun sjaldnar en fyrr. Það sé m.a. trjágróðri að þakka og ekki þurfi að fara lengra en í Öskjuhlíð til að sjá hvernig aðstæður hafa breyst.
Þar er mikill skógur sem tekur á sig vind. Spurður hvort veðurfar sé ólíkt eftir hverfum borgarinnar þá segir Haraldur ljóst að svo sé. Leitun sé að annarri borg þar sem bálhvasst er í einu hverfi á meðan logn er í öðru. Eins og sakir standa séu hins vegar ekki mælitæki til staðar í öllum hverfum.
„Þess vegna er erfitt að fullyrða um ólíkt veðurfar milli hverfa,“ segir Haraldur. Hann bendir þó á að eflaust séu allmargir stormar á Seltjarnarnesi, í Grafarholti og Norðlingaholti, svo dæmi séu nefnd.
„Nokkuð ljóst er að hvassara er þar en við Bústaðaveginn. Til að geta kannað þessi mál til hlítar þarf að setja upp 20-30 mæla á Reykjavíkursvæðinu,“ segir Haraldur. Hann segir að eins og sakir standa séu nokkrir mælar í notkun hjá ólíkum stofnunum, t.a.m. eigi vegagerðin mæli á Kjalarnesi og til langs tíma mældi Vegagerðin við Vífilsstaðaveg.
Veðurstofan mæli m.a. á Veðurstofunni, á Kjalarnesi, við Reykjavíkurflugvöll og við Korpu, svo dæmi séu nefnd. Mikið vanti þó á til að hægt sé að gera sér skýra mynd af breytileika veðurs á höfuðborgarsvæðinu.
Spurður hvort lögð hafi verið fram bón um kaup á fleiri mælum þá segir Haraldur svo ekki vera. „Ætli það endi ekki með því að ég geri það. Það þýðir ekkert að vera að væla um að einhver annar eigi að gera hlutina,“ segir Haraldur í gamansömum tón.
Aldrei stormur í sunnanátt
Hann segir að fjallahringurinn umhverfis höfuðborgarsvæðið hafi mikil áhrif á veðurfar. „Ekki bara undir fjöllunum heldur teygjast áhrifin talsvert langt. Ef við lítum á Esjuna þá skýlir hún stórum hluta byggðarinnar í norðaustanátt, svo skýlir hún líka í norðanátt en ekki alveg sömu hverfum. Svo virðist Esjan skýla Kjalarnesi og Mosfellsbæ glettilega vel í sunnanáttinni. Það eru t.a.m. aldrei stormar í sunnanátt á Kjalarnesi,“ segir Haraldur.