Var lengi af stað en verður nú glæsilegri með ári hverju

Á 100 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar árið 1962 gaf Skógræktarfélag Eyfirðinga bænum trjábelti í brekkunni ofan Eyjafjarðarbrautar frá afleggjaranum upp í Kjarnaskóg og norður að Lækjarbakka sem stóð til móts við syðstu húsin á flugvallarsvæðinu. Í beltinu er sitkabastarður mest áberandi. Það var lengi af stað en verður nú glæsilegra með ári hverju.

Eldri myndin sem hér sést að ofan var tekin 1981. Þá eru tæpir tveir áratugir liðnir frá gróðursetningunni og greinilegt að trén hafa ekki tosast mikið upp á hverju ári. Hallgrímur Indriðason, skipulagsfulltrúi Skógræktarinnar, sem var framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga um langt árabil, segir að þetta hafi verið mjög þéttar gróðursetningar. Talsverð afföll hafi orðið enda þurftu trén að koma sér upp úr kafgrasi. Reynt hafi verið að reyta frá trjánum og tilraunir gerðar með að klippa niður tjörupappa og leggja við trén til að halda grasinu frá.

Þetta belti hefur verið grisjað a.m.k. tvisvar sinnum og í mörg ár tók Skógræktarfélagið stærri jólatré úr honum fyrir götur og torg. Beltið er samt sem áður enn mjög þétt en hæstu trén eru farin að nálgast tuttugu metra hæð. Gjöfin góða frá 1962 hefur verið gefin af framsýni þeirri sem einkennir skógræktarfólk og hafi einhverjir haft vantrú á henni í upphafi ætti sú vantrú nú að hafa snúist í fögnuð. Auk þessa beltis við suðurmörk bæjarins gaf félagið líka bænum trjábelti við norðurmörkin þar sem þjóðvegurinn liggur úr bænum út fjörðinn að vestan. Þar eru lauftré mest áberandi.

Sem fyrr hvetur Skógræktin fólk til að skoða gamlar myndir og taka nýjar á sama stað til að sýna framvindu skóga á landinu. Slíkar myndir ásamt dálitlum upplýsingum um staðinn og skóginn má senda á netfangið petur@skogur.is til birtingar hér á vefnum.

Eldri mynd frá 1981: Ásgrímur Ágústsson
Yngri mynd frá 2017: Pétur Halldórsson