Hlynur Gauti Sigurðsson, skógræktarráðgjafi og kvikmyndagerðarmaður hjá Skógræktinni, myndar hér mæð…
Hlynur Gauti Sigurðsson, skógræktarráðgjafi og kvikmyndagerðarmaður hjá Skógræktinni, myndar hér mæðginin Hrefnu Jóhannesdóttur og Jan Eskil Holst við eldiviðarvinnslu á hlaðinu á Silfrastöðum. Mynd: Pétur Halldórsson.

Skógarbændur geta sparað mikinn hitunarkostnað með viðarofnum

Viður sem fenginn er með sjálfbærri skóg­rækt er endurnýjanleg orkuauðlind. Íslensk heimili sem ekki búa við hitaveitu geta spar­að stórfé á hverju ári með því að nýta heimafenginn við sem orkugjafa í stað raf­magns. Og slík orka er ekki síður græn og endurnýjanleg en íslenska rafmagnið.

Alþjóðlegur dagur skóga 21. mars er helg­að­ur skógum og orku hjá Sameinuðu þjóð­unum þetta árið. Skógræktin gefur út nýtt myndband í tilefni dagsins.

Í myndbandinu sýnir Hrefna Jóhannesdóttir, skógfræðingur og skógarbóndi, eldiviðar­vinnslu og kyndingu með viði á bæ sínum, Silfrastöðum í Akrahreppi í Skagafirði. Nytjaskógurinn á Silfrastöðum er óðum að komast á grisjunarstig og þá fellur til mikið magn timburs sem upplagt er að nýta sem orkugjafa því dýrt er að kynda hús með rafmagni og engin hitaveitan á Silfastöðum. Myndbandið gerði Hlynur Gauti Sigurðsson, skógræktarráðgjafi og kvikmyndagerðarmaður hjá Skógræktinni.

Alþjóðlegur dagur skóga - skógur og orka

Binding kolefnis í trjáviði er aðferð náttúrunnar til að geyma orku sólarinnar. Viðurinn verður til fyrir áhrif sólarljóssins með ljóstillífun og allt frá því að maðurinn uppgötvaði eldinn hefur hann notað hann til að halda á sér hita, elda mat, smíða úr járni og margt, margt fleira.

Viðarofnar og kamínur hafa þróast mjög undanfarin ár og áratugi. Nú er svo komið að þessi tæki nýta orkuna úr viðn­um mjög vel og láta mjög lítið frá sér af mengandi efnum. Með eftirbrennslu brenna upp þau efni sem ekki brunnu til fulls í eldhólfinu og út úr reykháfnum kemur aðallega vatnsgufa en sáralítið sót. Ef skógurinn er nytjaskógur þar sem ný tré vaxa í stað þeirra sem höggvin eru telst skógræktin sjálfbær. Fyrst binst kolefni í viðnum í skóginum, síðan losnar það aftur út í andrúmsloftið við brennsluna og binst svo aftur í skóginum rétt eins og gerist í náttúrunni þegar tré drepast, rotna og ný vaxa upp í staðinn. Með nýtingu viðar sem eldsneytis er farið inn í þessa náttúrlegu hringás kolefnis án þess að heildarlosun koltvísýrings aukist.


Viður er mikilvæg endurnýjanleg
orkuauðlind í heiminum

Á óvart kemur hversu stór hluti mannkyns treystir á við til eldamennsku og húshitunar eða hversu stór skerfur viðarorku er af allri endurnýjanlegri orku sem mannkynið notar. Skógur gefur okkur líka mat og vísinda­menn eru stöðugt að þróa aðferðir til að nýta sjálfbært hráefni eins og trjávið í stað ósjálfbærs hráefnis eins og kola, olíu og gass.

Enn er þó verk að vinna við að bæta að­stöðu fólks í fátækum löndum, koma upp þróuðum viðarofnum í stað frumstæðra elstæða, gera eldivið aðgengilegri og þar fram eftir götum. Tryggja þarf að eldiviðar sé alls staðar aflað með sjálfbærum hætti.

FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, hefur bæði gefið út stutt myndband um skóga og orku í tilefni alþjóðlegs dags skóga og sett upp skemmtilega getraun með tíu spurningum sem fólk ætti að spreyta sig á. Svör­in við mörgum þessara spurninga og skýringarnar sem þeim fylgja koma vafalaust mörgum á óvart. Á alþjóðleg­um degi 21. mars heldur FAO ráðstefnu um skóga og orku sem streymt verður beint á vefnum.

The forest: Nature's powerhouse

Ráðherra heimsækir Skógræktina

Skógræktin fagnar alþjóðlegum degi skóga með sínum hætti. Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, er væntanleg í opinbera heimsókn til stofnunarinnar og heldur fund með framkvæmdaráði og starfsfólki Skógræktar­inn­ar á Egilsstöðum kl. 9-11. Fundurinn hefst með sýningu myndbandsins nýja um skóga og orku.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndband: Hlynur Gauti Sigurðsson