Skógur sem vex á árbökkum og næst straumvatni hefur mjög mikið gildi við verndun ferskvatns, meira gildi en áður var talið.  Þetta eru niðurstöður rannsóknateymis í Pennsylvaniu, við rannsóknasetur í Avondale sem heitir Stroud Water Research Center. 

 Niðurstöðurnar eru mikilvægar þar sem ferskt vatn er takmörkuð auðlind í heiminum og 20% mannkyns hefur ekki aðgang að fersku vatni.  2.2 milljónir manna deyja árlega vegna sjúkdóma af völdum mengaðs vatns og slæmrar hreinlætisaðstöðu.

Hingað til hefur verið lögð of mikil áhersla á dýrar tæknilegar lausnir með stíflum og síunarbúnaði segir Bernard Sweeney, sem fer fyrir rannsóknateyminu.  Með tæknilegum lausnum fara menn oft á mis við kosti þess sem líffræðileg vistkerfi hafa að bjóða.

Rannsókn Sweeney og starfsfélaga hans sýnir að skógur við straumvötn verndar hreinleika þeirra og eykur getu vatnanna til þess að vinna úr lífrænum efnum og mengun á borð við köfnunarefni.

Skógareyðing á vatns og árbökkum dregur úr krafti og getu vistkerfa þeirra.  Rannsóknateymið rannsakaði 16 straumvötn í austanverðri Norður Ameríku.  Þeir sáu að straumvötn sem renna gegnum skóglendi eru víðari og grynnri en þau sem renna um haga og engi, með skógi eru vötnin grófari í botninn með fleiri vaxtarstaði fyrir lífverur og vatnið rennur hægar. 

 Kane - River rennur friðsæl um skóga Pennsylvaniu

Þessi einkenni vatna sem renna um skóglendi eiga samleið með því að þau eru ríkari af lífrænum næringarefnum, hafa jafnara hitastig og allt vistkerfið er ríkara en vatna sem ekki hafa skóg.  Slík vötn hafa gnægð bakteria, þörunga, hryggleysingja og fiska og ráða betur við að brjóta niður mengunarefni.

Rannsóknin fjallar um smærri straumvötn, en þau eru 90% allra straumvatna í Bandaríkjunum.  Niðurstöðurnar gefa mikil fyrirheit um að með því að rækta skóg meðfram þessum ám megi bæta gæði vatns mikið, þau renna síðan í stærri ár, árósa og á haf út.  Þrátt fyrir að niðurstöðurnar séu byggðar á rannsóknum gerðum í Norður Ameríku, þá eru ýmsar vísbendingar um að þær geti átt við um allan heim.

Einnig má benda á áhugaverðar upplýsingar sem er að finna á skógur.is þar sem Ráðstefnu um samspil skógarþekju og lífs í ám og vötnum sem haldin var í janúar sl. er gerð skil.  Sjá:

http://www.skogur.is/Apps/WebObjects/Skogur.woa/wa/dp?id=1000530

Sjá heimasíðu Stroud Water Research Center:

http://www.stroudcenter.org

Sjá frétt:

http://www3.eurekalert.org/pub_releases/2004-09/nsf-rua091304.php