Fyrsta fræðsluerindi nýs árs á Náttúrufræðistofnun verður 18. janúar 2006, kl. 12.15 í sal Möguleikhússins á Hlemmi.
Erling Ólafsson og María Ingimarsdóttir, líffræðingar á Náttúrufræðistofnun, kynna verkefnið:

SKÓGVIST

Flestar tegundir smádýra gera sérhæfðar kröfur til umhverfis síns. Af þeim sökum bregðast þau oftast snarlega við breytingum, enda flest hver ágætlega hreyfanleg. Í erindinu verður fjallað um viðbrögð smádýra þegar land er tekið til skógræktar. Rannsóknirnar ná til skordýra, fjölfætlna áttfætlnaog snigla

Verkefnið er liður í SKÓGVIST, yfirgripsmiklu samvinnuverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, Skógræktar ríkisins og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, þar sem áhrif skógræktar á lífríki og ýmsa umhverfisþætti eru rannsökuð.

Rannsóknir fóru fram á afmörkuðum svæðum á Fljótsdalshéraði á Austurlandi og í Skorradal og Stafholtstungum á Vesturlandi. Á Austurlandi voru misgamlir lerkiskógar kannaðir, auk birkiskóga og mólendis, en greni- og furuskógar á Vesturlandi, auk birkiskóga og mólendis til samanburðar sem fyrr. Gagna um smádýr var aflað sumrin 2002 – 2005, með fallgildrum og háfun. Niðurstöður fallgildruveiðanna liggja fyrir og verða hér til umfjöllunar. Gildrurnar fönguðu alls 34.754 eintök smádýra sem voru tekin til meðhöndlunar og greininga. Af þessu safni hafa nú 25.080 eintök verið greind og teljast þau til 299 tegunda.

Rannsóknirnar leiddu margt markvert í ljós. Fram kom augljós munur á smádýrafánu eftir landshlutum. Einnig sýndu niðurstöður að skógrækt hefur mikil áhrif á smádýralíf sem breytist eftir að trjám er plantað í land og með aldri skóganna. Fjöldi dýra sem eru á ferli breytist þó lítið við skógrækt en landið skiptir algjörlega um tegundir. Smádýr sem lifa í opnu mólendi eru því sem næst allt önnur en þau sem lifa á skógarbotni gamalla barrskóga. Ekki virðist skipta máli fyrir þróun smádýralífsins hvort furu eða greni er plantað. Hins vegar búa aðrar tegundir í lerkiskógunum og líkist meira smádýralífi birkiskóga, enda fellir lerki barrið og er því líkara laufskógum að því leyti.

Heimild: vefur Náttúrufræðistofnunar Íslands (www.ni.is)