Nemendur úr Grunnskóla Þorlákshafnar ásamt kennara sínum við gróðursetningu á Hafnarsandi 31. maí 20…
Nemendur úr Grunnskóla Þorlákshafnar ásamt kennara sínum við gróðursetningu á Hafnarsandi 31. maí 2019. Ljósmynd: Edda S. Oddsdóttir

„Það er gott fyrir jörðina að planta trjám,“ sögðu nemendur í Grunnskólanum í Þorlákshöfn á föstudag þegar gróðursett var á Hafnarsandi í Ölfusi í tilefni af því að Yrkjusjóður, Skógræktin og Landgræðslan hafa undirritað samstarfsyfirlýsingu um aukna gróðursetningu grunnskólabarna og fræðslu fyrir þau um samspil kolefnisbindingar, landnotkunar og loftslagsmála.

Skólapiltur og ráðherra ráða ráðum sínum um gróðursetningu. Ljósmynd: Edda S. OddsdóttirHópur barna úr skólanum tók þátt í gróðursetningunni ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra. Fjallað var um gróðursetninguna á fréttavefnum sunnlenska.is og rætt við ráðherra. „Yrkjusjóður hefur gert börnum um allt land kleift að taka þátt í að binda kolefni úr andrúmslofti. Með því að efla verkefnið geta enn fleiri börn tekið þátt í að takast á við eina stærstu áskorun þessarar aldar, loftslagsvána. Verkefnið felur jafnframt í sér endurheimt birkiskóga og lífríkis landsins sem stjórnvöld leggja nú stóraukna áherslu á,“ segir Guðmundur Ingi í spjalli við sunnlenska.is.

Yrkja – sjóður æskunnar til ræktunar landsins, var stofnuð í tengslum við afmæli frú Vigdísar Finnbogadóttur og var fyrst úthlutað úr sjóðnum árið 1992. Markmið sjóðsins er að veita fjármuni til að grunnskólabörn á Íslandi geti gróðursett trjáplöntur og þannig kynnst mikilvægi skógræktar og ræktunar almennt.

Sunnlenska.is ræðir við tvo nemendur í Grunnskólanum í Þorlákshöfn, þau Elísabetu Mörtu Jónasdóttur og Alexander Guðmundsson. „Við komum hingað fyrir jörðina okkar af því að við erum að reyna að hugsa vel um hana. Mengunin er alltaf að verða meiri og meiri og það er gott fyrir jörðina að planta trjám,“ segja Elísabet Marta og Alexander.

Fjölmargir hafa sýnt skógrækt á Hafnarsandi áhuga og þó nokkrir hópar hafa komið þar til að gróðursetja að undanförnu þótt verkefnið sé enn að slíta barnsskónum. Vonandi ergróðursetning grunnskólabarnanna frá Þorlárkshöfn vísir að því sem koma skal hjá grunnskólunum um allt land. Meðfylgjandi myndir tók Edda Sigurdís Oddsdóttir við gróðursetninguna á föstudag.

Heimild: Sunnlenska
Texti: Pétur Halldórsson
Ljósmyndir: Edda Sigurdís Oddsdóttir