Vegna bilunar í skráningarvél eru þátttakendur beðnir að yfirfara skráningu sína
Auglýstur frestur rennur út í dag til að skrá sig til þátttöku á skógræktarráðstefnuna sem haldin verður 20. janúar til heiðurs Jóni Loftssyni, fyrrverandi skógæktarstjóra. Yfirskrift ráðstefnunnar er Tímavélin hans Jóns og þar verður litið yfir síðustu sjötíu ár í skógrækt á Íslandi og spáð í hver þróunin geti orðið næstu sjötíu árin.
Vegna bilunar í skráningarvél eru þátttakendur sem þegar höfðu skráð sig beðnir að yfirfara skráningu sína.
Skráið ykkur inn á ný HÉR. Ef skráningarvélin svarar að þið séuð þegar skráð hefur fyrri skráning tekist, annars ekki.
Tímavélin hans Jóns - skráning hér
Yfirskrift fyrri hluta ráðstefnunnar er Skógrækt frá stríðslokum til okkar daga. Segja má að eftir stríð hafi hjólin farið að snúast í skógrækt hérlendis. Árið 1945 fór Hákon Bjarnason skógræktarstjóri í fræga þriggja mánaða för vestur um haf, safnaði meðal annars sitkagrenifræi og kom líka með fræ af alaskalúpínu, vongóður um að sú duglega tegund yrði til mikillar hjálpar við að græða upp landið og klæða það skógi. Og víst er að norður-amerískar tegundir, einkum sitkagreni, stafafura og alaskaösp hafa reynst vel í skógrækt hérlendis síðan. Meðal þess sem rætt verður á ráðstefnunni er einmitt sitkagrenið og arfleifð Hákonar Bjarnasonar en einnig verður litið til fyrstu skógræktarlaganna 1907, fjallað um fyrstu hugmyndir hérlendis um timburskóga og rætt um skaðvalda í fortíð og framtíð.
Sitkagreniskógur í Haukadal.
Mynd: Pétur Halldórsson.
Síðari hluti ráðstefnunnar ber yfirskriftina Skógrækt, möguleikar og framtíðarsýn. Þar verður einkum horft til framtíðarinnar, rætt um margslungin áhrif gróðurs á veðurfar, skógarrannsóknir og mögulega þróun skóga fram til 2085, gerð landsáætlunar, framtíðarmarkað fyrir skógarafurðir og skógrækt á breytingatímum. Spurt verður jafnframt hvort Ísland verði eftirsótt til kolefnisbindingar með skógrækt og hvernig samspil ferðaþjónustu og skógræktar geti verið.
Ráðstefnan er öllum opin en þess er óskað að fólk skrái sig til þátttöku á vef Skógræktar ríkisins fyrir 11. janúar með eftirfarandi hlekk:
Tímavélin hans Jóns - skráning hér
Dagskrá ráðstefnunnar:
Skógrækt frá stríðslokum til okkar daga (1945-2015)
09:15 Setning ráðstefnu. Hallgrímur Indriðason
09:20 Áhrif fyrstu skógræktarlaganna - Sú kemur tíð er sárin foldar gróa. Helgi Sigurðsson
09:45 Sitkagrenið kemur til landsins og arfleifð Hákonar Bjarnasonar. Aðalsteinn Sigurgeirsson
10:10 Kaffihlé
10:30 Sveifla haka og rækta nýjan skóg. Fyrstu hugmyndir um timburskóga. Þorbergur Hjalti Jónsson
10:55 Skaðvaldar í fortíð og framtíð – Á hverju eigum við von? Edda S. Oddsdóttir
11:20 Margslungin áhrif gróðurs á veður og veðurfar. Haraldur Ólafsson
11:45 Hádegisverður
Skógrækt, möguleikar og framtíðarsýn (2015-2085)
12:45 Möguleg þróun skóga fram til 2085. Bjarki Kjartansson og Björn Traustason
13:10 Gerð landsáætlunar í skógrækt. Þröstur Eysteinsson
13:35 Markaður fyrir skógarafurðir framtíðarinnar. Hrefna Jóhannesdóttir
14:00 Kaffihlé
14.20 Skógrækt á tímum breytinga. Jón Geir Pétursson
15:45 Verður Ísland eftirsótt til kolefnisbindingar í skógrækt? Brynhildur Bjarnadóttir
15:10 Samspil ferðaþjónustu og skógræktar – betra ferðamannaland með meiri skógi? Edward H. Huijbens
15:35 Ávarp við fundarlok. Jón Loftsson, skógræktarstjóri
Skráðu þig á skogur.is fyrir 11. janúar