Þessa mynd tók Áskell Þórisson, útgáfu- og kynningarstjóri Landgræðslunnar, þegar skrifað hafði verið undir samninginn. F.v. Aðalsteinn Sigurgeirsson, Gunnsteinn Ómarssonog Árni Bragason.
Stefnt að því að fjármögnun verði lokið 1. júní 2017
Samningur um Þorláksskóga undirritaður í dag. Að honum standai Sveitarfélagið Ölfus, Landgræðsla ríkisins og Skógræktin. Markmiðið er að græða upp land á Hafnarsandi og rækta þar skóga til að verjast náttúruvá, vernda byggð og til fjölbreyttra nytja. Stefnt er að því að fjármögnun verkefnisins og samningagerð verði lokið 1. júní á næsta ári.
Aðalsteinn Sigurgeirsson fagmálastjóri undirritaði samninginn fyrir hönd Skógræktarinnar sem staðgengill skógræktarstjóra, Árni Bragason landgræðslustjóri fyrir hönd Landgræðslunnar og Gunnsteinn Ómarsson bæjarstjóri fyrir hönd Sveitarfélagsins Ölfuss. Segja má að Aðalsteinn sé öllum hnútum kunnugur á þeim slóðum sem verkefnið verður unnið á því hann er meðal þeirra sem unnið hafa ötullega að skóggræðslu á Hafnarsandi með góðum árangri.
Moldrok og sandfok var alvarlegt vandamál í Þorlákshöfn á sínum tíma en Landgræðslan hefur unnið þar mikið starf til að stöðva sandfok og jarðvegseyðingu á Hafnarsandi. Þar var lögð megináhersla á að vernda byggð og vegi fyrir sandfokinu. Ástandið er nú allt annað og betra. Enn er þó mikið verk óunnið. Þar að auki er ljóst að Hafnarsandur hentar mjög vel til skóggræðslu enda veðurfar milt og rakt og skilyrði góð.
Síðustu áratugi hafa Sveitarfélagið Ölfus, skógræktarfélög og einkaaðilar unnið við krefjandi aðstæður að skógrækt á svæðinu. Árangur skógræktartilrauna er með ágætum og er ljóst að vel er hægt að rækta upp gróskumikinn skóg á svæðinu. Mikill áhugi er meðal heimafólks í Ölfusi, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar að vinna saman að skógrækt á Hafnarsandi.
Sveitarfélagið Ölfus, Landgræðslan og Skógræktin munu í framhaldinu leita leiða til fjármögnunar, bæði í gegnum fjárveitingar ríkisins og framlög félagasamtaka, fyrirtækja og einkaaðila ekki ósvipað því sem gert hefur verið í Hekluskógaverkefninu.
Í samningum kemur fram að aðilar eru sammála um að vinna að nauðsynlegri undirbúningsvinnu og skipulagningu fyrir framkvæmd Þorláksskóga.
Myndband um undirritun samningsins
Markmið verkefnisins eru að:
• græða upp land og rækta skóga til að verjast náttúruvá, vernda byggð og til fjölbreyttra nytja s.s. útivistar.
• vinna að stefnu íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamkomulagið.
• vinna að stefnu um endurheimt vistkerfa til að auka líffræðilega fjölbreytni.
• vinna að framkvæmd laga um skógrækt og laga um landgræðslu.
• leita eftir samstarfi við fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga um fjármögnun og vinnuframlag.
• styðja við atvinnuþróun og eflingu byggðar á svæðinu.
Aðilar samningsins skipa verkefnisstjórn sem í sitja tveir fulltrúar Landgræðslunnar, tveir fulltrúar Skógræktarinnar og tveir fulltrúar Sveitarfélagsins Ölfuss. Annar fulltrúa Ölfuss verður formaður verkefnisstjórnar.
Til þess að halda utan um undirbúning næstu mánaða verður ráðinn verkefnisstjóri og skipta ríkisstofnanirnar með sér kostnaðinum af starfi hans. Stefnt er að því að ljúka samningagerð og fjármögnun verkefnisins fyrir 1. júní 2017.