Séð yfir tilraunasvæðið í Mjóanesi á Héraði þar sem er að finna íslensk kvæmi skógarfuru með eflt viðnám gegn furulús. Ljósmynd: Lárus Heiðarsson
Skæður faraldur furulúsar í skógarfuru hérlendis virðist hafa orðið til þess að efla mjög viðnámsþrótt íslenskrar skógarfuru gegn lúsinni. Þetta gæti verið afleiðing af mjög áköfu náttúruvali á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar þegar furulús skemmdi eða eyðilagði mikinn meirihluta skógarfurutrjáa sem gróðursett höfðu verið á landinu.
Skógarfura (Pinus sylvestris)var fyrst flutt til Íslands snemma á tuttugustu öld og eftir seinna stríð voru skógarfurukvæmi frá Norður-Noregi ræktuð hér í stórum stíl og gróðursett víða um land. Talið er að furulús (Pineus pini) hafi borist til landsins fyrir 1940, mögulega með innfluttum trjáplöntum árið 1937. Lúsin dreifðist um nýjar gróðursetningar jafnóðum. Um 1954 voru víða farnar að sjást mjög skemmdar furur af völdum lúsarinnar. Tré tóku að drepast og afleiðingin varð sú að notkun skógarfuru í skógrækt hérlendis lagðist af.
Vísindamenn frá Skógræktinni, Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslunni sáu tækifæri í þessari tilraun sem náttúran sjálf hafði gert á skógarfurunni. Hana mætti nýta til að rannsaka áhrif furulúsarinnar á mismunandi efnivið af skógarfuru. Niðurstöður þeirra athugana birtust nýlega í vísindaritinu Agricultural and Forest Entomology.
Gerðar voru mælingar á tilraunareitum með skógarfuru sem lagðir voru út á nokkrum stöðum á Íslandi á árunum 2004–2006. Þar voru gróðursett skógarfurukvæmi frá Austurríki, Finnlandi, Noregi, Rússlandi og Skotlandi, auk skógarfuru frá þremur stöðum á Íslandi þar sem tré höfðu lifað lúsafaraldurinn af. Markmiðið var að sjá hvort skilyrði til ræktunar á skógarfuru á Íslandi hefðu batnað frá því um miðja síðustu öld og hvort önnur kvæmi væru ef til vill betur aðlöguð aðstæðum á Íslandi en þau norðlægu norsku sem notuð voru hér á árum áður.
Mælingar sem gerðar voru árið 2017 sýndu greinilega verulegan mun milli íslenska efniviðarins og þess innflutta.
Aftur á móti er ekki á þessu stigi hægt að skera úr um hvor af tveimur mögulegum skýringum á þessu er sú rétta. Ljóst er að náttúruval hefur breytt erfðafræðilegri uppbyggingu íslenska efniviðarins en hvort tveggja er mögulegt, að trén hafi myndað aukið mótstöðuafl fyrir lúsinni eða að þau séu nú almennt betur aðlöguð íslenskum aðstæðum og þess vegna séu þau síður útsett fyrir áhrifum lúsarinnar.
Utangenaerfðir (epigenetics) gætu mögulega útskýrt að hluta til þau áhrif sem þarna hafa komið í ljós. Úrval af völdum lúsarinnar gæti hafa leitt til þess að trén fóru að leggja minni áherslu á vöxt. Þetta ráða menn af þeim niðurstöðum rannsóknarinnar að þau tré af innflutta efniviðnum sem uxu best reyndust jafnframt viðkvæmari fyrir lúsinni en þau sem hægar uxu. Hins vegar reyndust tvö af íslensku kvæmunum þremur hafa bæði mikinn vaxtarþrótt og góða mótstöðu við lúsinni. Niðurstöður þessara kvæmatilrauna sýna að til fræræktar og frekari kynbóta á skógarfuru á Íslandi virðist vænlegra að byggja á þeim efniviði sem til varð við stórfellt náttúruval hérlendis, fremur en að nota innflutt fræ.
Hlekkur á greinina
Lárus Heiðarsson, Bjarni D. Sigurdsson, Benjamín Örn Davíðsson, Brynja Hrafnkelsdottir, Aðalsteinn Sigurgeirsson, Brynjar Skúlason, María Danielsdottir Vest and Guðmundur Halldórsson. 2020. The effect of the pine woolly aphid (Pineus pini) on survival, growth and natural selection in Scots pine (Pinus sylvestris) in Iceland. Agricultural and Forest Entomology.