Svona má útbúa fallegt hestagerði úr grisjunarviði. Þannig gefur ungur skógur nytsamlegar afurðir.
Svona má útbúa fallegt hestagerði úr grisjunarviði. Þannig gefur ungur skógur nytsamlegar afurðir.

Skógarbændurnir í Giljalandi Skaftártungu nýta eigið efni til smíða

Í Giljalandi í Skaftártungu búa hjónin og skógarbændurnir Sigurður Ólafsson og Þuríður Á. Jónsdóttir. Fyrir þremur árum keypti Sigurður sög sem hann pantaði frá Kanada og segir hann að sög af þessari gerð geti hentað mjög vel fyrir skógar­bændur og aðra smánotendur.

Skógræktin á Giljalandi hófst árið 1995 og er stærð skógræktarsvæðisins um 102 ha. Helstu trjátegundir eru sitka­greni og stafa­fura, en einnig er þar nokkuð af ösp og birki. Á fyrstu árunum var plantað ein­hverju af rússalerki en það hefur almennt þrifist mjög illa. Nokkrum plöntum af lerki­blend­ing­num Hrymi var plantað 2012 og segir Valgerður Erlingsdóttir, skógræktarráðgjafi Skógræktarinnar á Suðausturlandi, að sumar þeirra hafi dafnað mun betur en eldra lerkið. Sitkagreni dafni einna best á Giljalandi, furan síður en hún nái sér þó vel á skrið þar sem hún er í skjóli. Þá dafni alaskaöspin líka nokkuð vel en þó sé það mjög breytilegt eftir klónum. Af öllum trjátegundum hefur sitkagrenið gefist allra best, segir Valgerður, og virðist vera sú trjátegund sem kemur til með að gefa af sér bestu afurðirnar í nytjaviði þegar fram líða stundir.


Sá skógarreitur á Giljalandi sem nú er byrjað að grisja úr og saga niður í nytjavið er stafafura sem gróðursett var á vegum Skógræktar ríkisins í kringum 1979 og 1989.

Efnið sem Sigurður hefur verið að saga er aðallega fura úr gamla furulundinum á Giljalandi og hefur hann nýtt þetta efni í smíði ýmissa hluta. Hann hefur til dæmis smíðað borð og bekki, skilti og hestagerði en einnig útbúið klæðningu utan á palla við gistihúsin á Giljalandi þar sem rekin er ferðaþjónusta í nokkrum gistiskálum.

Meðfylgjandi myndir sýna vel hvernig skógarbændur geta nýtt efnivið sinn til góðra verka og hvernig skógræktin nýtist annarri starfsemi á bújörðinni.



Þetta sorptunnuskýli er smíðað úr óköntuðu efni sem fengið er af ungum trjám. Með þessu móti má vel nýta t.d. grisjunarvið.
Mynd: Sigurður Ólafsson.

Texti: Pétur Halldórsson
Heimildir: Valgerður Erlingsdóttir