Frá Óseyri við Stöðvarfjörð. Ljósmynd: Lárus Heiðarsson
Út er komið nýtt tölublað af Riti Mógilsár. Það hefur að geyma skýrslu um ástand ræktaðs skógar á lögbýlinu Óseyri við Stöðvarfjörð og spá um kolefnisbindingu skógarins næstu 70 árin miðað við annars vegar hefðbundnar nytjar og hins vegar engar nytjar. Skógurinn er enn ekki kominn í fullan vöxt. Þegar vöxtur fer í gang fyrir alvöru verður hægt að gera enn traustari spár.
Skýrslan er á ensku og ber titilinn Inventory of Carbon stock changes at Óseyri afforestation area in Stöðvarfjörður, East-Iceland. Höfundar eru Arnór Snorrason, deildarstjóri loftslagsdeildar rannsóknasviðs Skógræktarinnar, og Lárus Heiðarsson, skógræktarráðgjafi á skógarþjónustusviði Skógræktarinnar. Skýrslan var unnin að beiðni fyrirtækisins Yggdrasill Carbon ehf. sem fjármagnaði hana að hluta. Markmiðið var að kortleggja ástand ræktaðra skóga á jörðinni Óseyri við Stöðvarfjörð og að áætla árlega þróun kolefnisforða í skóginum allt að sjötíu ár fram í tímann miðað við hefðbundna meðferð nytjaskógar. Til samanburðar er einnig dregin upp mynd af þeirri kolefnisbindingu sem vænta mætti ef engar timburnytjar yrðu af skóginum á sama tímabili.
Vinna að skógrækt á Óseyri hófst árið 2006 með samningi um opinber framlög til skógræktar á lögbýlinu Óseyri. Við skýrslugerðina nýttust m.a. gögn sem aflað var við gerð skógræktaráætlunarinnar í upphafi. Til skógræktar var tekið rýrt mólendi, víða vaxið lyngi eða fjalldrapa. Skógræktaráætlun var tilbúin snemma árs 2009 en gróðursetning hafði hafist tveimur árum fyrr. Skipulagt var 191,6 hektara svæði en undan tekið mýrlendi og klappir. Gróðursett hefur verið á hverju ári frá 2007 nema árið 2018. Í fyrra höfðu alls verið settar niður rúmlega 380.000 trjáplöntur í svæðið, mest af birki, tæpur þriðjungur, um fjórðungurinn stafafura, tæp 19% lerki og 15,5% sitkagreni. Einnig hefur verið sett niður alaskaösp, sitkaelri, reyniviður og fleiri tegundir.
Þær tegundir sem helst má vænta viðarnytja af á Óseyri eru alaskaösp, sitkagreni og stafafura. Með hlýnandi loftslagi síðustu árin hefur lerki ekki þrifist nægilega vel á sunnanverðum Austfjörðum, ef undanskilinn er lerkiblendingurinn Hrymur sem þó er aðeins í litlum mæli á Óseyri. Því er umdeilanlegt hvort gera skuli ráð fyrir timburnytjum af lerki á Óseyri, eins og gert er í skýrslunni, en höfundar gera á því skýran fyrirvara.
Vegna skýrslugerðarinnar var gerð úttekt á skóginum með hefðbundnum mælingum á mæliflötum. Venjubundnar og reyndar aðferðir voru notaðar við að reikna út árlegar breytingar á kolefnisforða skógarins. Nýtt tæki sem Skógræktin hefur verið að taka í notkun, Skógarkolefnisreiknir, var notað til að spá fyrir um viðarvöxt og kolefnisbindingu. Inn í spárnar eru reiknaðir ótal þættir, m.a. áhrif grisjunar, rotnunar laufs og annars efnis í skóginum og svo framvegis.
Skógurinn er ungur og því ekki hægt að búast við mjög háum tölum um kolefnisbindingu enn sem komið er. Jafnframt sýnir rannsóknin að skógurinn á að miklu leyti enn eftir að komast í almennilegan vöxt og fyrir því eru ýmsar ástæður. Því reyndist ekki unnt að skilgreina vaxtarlínur út frá beinum mælingum á skóginum. Gera má ráð fyrir því að skógurinn komist í góðan vöxt á næstu 5-10 árum og þá skýrist margt betur, til dæmis hvort gera má ráð fyrir að lerkið geti skilað seljanlegu timbri, auk aspar, grenis og furu. Í skýrslunni er gerð grein fyrir ýmsum óvissuþáttum og á hana ber að líta sem fyrstu atrennu að spá um þróun kolefnisforða skógarins á Óseyri.