Skógarganga í bændaskógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Skógarganga í bændaskógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Samráðsfundir Skógræktarinnar og skógarbænda verða haldnir í öllum landshlutum seinni hluta júnímánaðar. Skógræktarstjóri og sviðstjóri skógarþjónustu hjá Skógræktinni taka þátt í skógargöngum með skógarbændum og þar gefst tækifæri til spurninga og samræðna.

Skógræktin leggur áherslu á góð tengsl við skógarbændur og samtök þeirra. Reglulega eru haldnir samráðsfundir í landshlutunum en nú er efnt til þeirrar nýbreytni að nota skógana sem vettvang til slíkra funda í stað fundarsetu og ræðuhalda undir þaki. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógarþjónustu hjá Skógræktinni, fara um landið seinni tvær vikurnar í júní og fleiri starfsmenn Skógræktarinnar kunna að fljóta með eftir því sem tækifæri gefast.

Hringferðin hefst í Ölfusi 21. júní en lýkur á Héraði hinn þrítugasta. Fundirnir eru skipulagðir í samstarfi við félög skógarbænda í hverjum landshluta sem skipuleggja fundina. Áhugavert er að koma í skóga skógarbænda og fylgjast með vexti þeirra og viðgangi. Allir skógarbændur eru hvattir til að taka þátt í þessum fundum og efla þar með samráð og samtal bænda og Skógræktarinnar um hvað eina sem snertir skógrækt á lögbýlum í landinu.

Dagskrá

  • Suðurland 21. júní kl. 19 - Skógarganga að Núpum í Ölfusi
  • Vesturland 23. júní kl. 18 - Skógarganga að Ferstiklu í Hvalfirði
  • Norðurland 24. júní kl. 17 - Skógarganga á Hofi í Vatnsdal
  • Vestfirðir/Strandir 26. júní kl. 12.30 - Aðalfundur Félags skógarbænda á Vestfjörðum á Svanshóli í Bjarnarfirð
  • Austurland 30. júní kl. 18 -  Skógarganga á Mýrum í Skriðdal

Klæðið ykkur eftir veðri

Vakin er athygli á að þessir viðburðir verða utandyra og fólk er því beðið að vera klætt eftir veðri.

Hlökkum til að sjá sem flesta skógarbændur!

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson