(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)
(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)

Í júlí 2009 samdi Elkem Ísland við Skógrækt ríkisins um kaup á þúsund tonnum af grisjunarvið úr Skorradal í framleiðslutilraun á Grundartanga. Skógareigendur á Fljótsdalshéraði lögðu einnig lerkivið í verkefnið. Viðurinn var kominn á Grundartanga í febrúar 2010 og var kurlaður þar. Tilgangur tilraunarinnar var að fá nákvæmar upplýsingar um áhrif fersks  trjáviðar með berki á rekstur ofna verksmiðjunnar og á gæði framleiðslunnar. Í framhaldi af tilrauninni stefna  samningsaðilar að víðtækara samstarfi um sjálfbæra og arðsama nýtingu íslenskra skóga og aukinna gæða í framleiðsluferli Elkem á Íslandi.

Í apríl 1975 stofnuðu Ríkisstjórn Íslands og bandaríska fyrirtækið Union Carbide Íslenska járnblendifélagið hf. Union Carbide dró sig fljótlega út úr samstarfinu og í stað þess kom norska stórfyrirtækið Elkem að rekstrinum. Elkem eignaðist félagið að fullu árið 2003 og breytti árið 2008 nafni fyrirtækisins í Elkem Ísland ehf. Verksmiðja Járnblendifélagsins var í upphafi teiknuð með fjóra bræðsluofna sem byggja átti í tveimur áföngum. Byrjað var að reisa verksmiðjuna árið 1977 og fyrsti ofninn var tekinn í notkun árið 1979 og annar ári seinna. Í upphafi var samanlögð framleiðslugeta ofnanna tveggja um 60 þúsund tonn af 75% kísiljárni en var aukin árið 1995 í 72 þúsund tonn á ári. Þriðji ofninn kom í fullan rekstur árið 2001. Frá þeim tíma hefur árleg framleiðslugeta verksmiðjunnar verið um 120.000 tonn af 75% kísiljárni. Árið 2008 tók verksmiðjan í notkun framleiðslulínu fyrir magnesíum kísiljárn (FSM) og mun nota um þriðjung af kísiljárnframleiðslu sinni í þessa fullvinnslu kísilmálmblendis.

Lesið meira úr grein Þorbergs Hjalta um spurn kísiliðnaðar á Íslandi eftir iðnviði í Ársriti Skógræktar ríkisins.


Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir, kynningarstjóri