Útlit er fyrir mikinn skort á jólatrjám víða í Evrópu í ár vegna minni ræktunar í Danmörku. Framkvæmdastjóri Blómavals, sem flytur inn tré frá Danmörku, telur ekki líkur á skorti hérlendis og væntir þess að framboð innlendra jólatrjáa nái að mæta eftirspurninni.

Fyrir tveimur árum fengu danskir jólatrjábændur úreldingarstyrki frá Evrópusambandinu en Danir framleiða langstærstan hluta jólatrjáa á Evrópumarkaði, einkum norðmannsþin. Margir bændur þáðu styrkina og sneru sér að annarri ræktun. Í kjölfarið hurfu framleiðendur ódýrra jólatrjáa af markaði og verð á trjám hækkaði um 15-20%.

 

Afleiðingin er sú að í ár lítur út fyrir mikinn skort á jólatrjám víða í Evrópu og mun hærra verð. Kristinn Einarsson, framkvæmdastjóri Blómavals, sem flytur inn Norðmannsþin frá Danmörku, segist ekki búast við skorti hérlendis en um 30.000-35.000 jólatré seljast á Íslandi fyrir hver jól. Hann hvetur íslenska skógræktarmenn til að rækta tré fyrir innanlandsmarkað og segist vonast til að íslensk tré geti orðið um helmingur jólatrjáa á markaði.

 

Heimild: „Ekki útlit fyrir skort á jólatrjám“ (úr hádegisfréttum RÚV, 20. nóv. 2007; hlusta má á fréttina HÉR) 

Jafnvel í skógarlandinu Svíþjóð virðist umtalsverður skortur vera yfirvofandi á jólatrjám fyrir þessi jól:

Julgransbrist ger klirr i kassan (Dagens Nyheter)

Julgransbrist trissar upp priset (Svenska Dagbladet)