Flett borð úr íslenskum viði. Mikill ávinningur væri ef stytta mætti þurrktíma timburs um allt að þrjá fjórðu og nota innlendan jarðvarma í ferlinu. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Loftslagssjóður hefur úthlutað rúmum fjórum milljónum króna til nýsköpunarverkefnis sem Skógræktin tekur þátt í. Þróuð verður aðferð til að nýta íslenskan jarðvarma til að þurrka timbur á hagkvæman og umhverfisvænan máta. Með þessu gæti íslenskt timbur orðið samkeppnishæfara og kolefnisspor framleiðslunnar eitt hið minnsta í heiminum.
Verkefnið vinnur Skógræktin í samstarfi við EFLU verkfræðistofu, Trétækniráðgjöf slf., Límtré Vírnet ehf. og Fjölina timburvinnslu ehf. Í hlut EFLU kemur að sjá um stóran hluta af verkefninu en Skógræktin fer með verkefnisstjórn ásamt EFLU. Verkefnisstjóri verður Trausti Jóhannsson, húsasmiður, skógfræðingur og skógarvörður á Suðurlandi.
Verkefnið felst í að þróa aðferð til að nýta íslenskan jarðvarma til þess að þurrka timbur á hagkvæman og umhverfisvænan máta. Hugmyndin er að sjálfbær íslensk jarðvarmaorka nýtist í þurrkunarferlinu í stað innflutts eldsneytis. Með aðferðafræðinni sem hugmyndin er að beita er gert ráð fyrir að hægt verði að þurrka timbrið mun hraðar en tíðkast hefur í þurrkklefum fram til þessa. Rætt er um jafnvel einn fjórða af þeim tíma sem venjulega tekur að þurrka timbur. Það leiðir af sér tvennt. Annars vegar verður timbrið hæfara til að keppa við annað timbur á markaðnum og hins vegar verður kolefnisspor þess væntanlega eitt hið minnsta í heiminum af slíkri framleiðslu.
Í stuttu máli er hugmyndin sú að nota jarðvarmann til hitunar en rafmagn til að skapa undirþrýsting sem gerir að verkum að þurrktíminn verður mun skemmri en með þeim búnaði sem t.d. hefur verið notaður hjá Skógræktinni til þessa. Gert er ráð fyrir að framboð á flettanleguefni úr íslenskum skógum stóraukist á komandi árum og á árunum eftir 2030 verði hægt að taka úr skógunum yfir 50.000 rúmmetra af bolviði á ári að meðaltali. Mikil þörf er því fyrir þekkingu, aðferðir, búnað og aðstöðu til timburvinnslu hérlendis. Aðstandendur verkefnisins telja jafnvel að hagkvæmt geti orðið að flytja inn trjáboli til Íslands til þurrkunar hér ef aðferðin reynist vel.
Þurrkofnar verða hannaðir með tilliti til efnisvals, afkasta og stýringar. Einnig verða lögð drög að vinnslulínu, m.a. til að mynd fáist af orku- og hráefnaþörf slíkrar vinnslu. Reiknað verður út kolefnisspor framleiðslunnar svo bera megi það saman við hefðbundin ferli. Sömuleiðis verður kannað hvar á landinu yrði hagkvæmt að setja upp vinnslu sem þessa með tilliti til aðstæðna, timburframboðs o.fl. Niðurstöður verða kynntar með skýrslu sem stefnt er að útgáfu á í október.
Þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr Loftslagssjóði. Sjóðurinn heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra. Hlutverk hans er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Alls bárust 158 umsóknir í Loftslagssjóð að þessu sinni og hlutu 24 verkefni styrk, samtals upp á rúmar 170 milljónir króna. Helmingur verkefnanna var nýsköpunarverkefni og hinn helmingurinn kynningar- og fræðsluverkefni. Nánari upplýsingar er að finna á vef Rannís sem sá um úthlutunina.