Föstudaginn, 15. júní s.l. var Stekkjarvík í Hallormsstaðaskógi formlega opnuð með grillveislu.  Stekkjarvík er við Lagarfljót neðan þjóðvegar beint fyrir neðan Hafursárbæinn.  Þar hefur verið lagður vegur, útbúin nokkur svæði með borðum og grillaðstöðu inni í skóginum og lagðir stígar niður að Fljóti.  Þar getur fólk dvalið dagsstund, notið strandarinnar og borðað nestið sitt í skjóli skógar, en ekki tjaldað.

Atlavík er hinn hefðbundni samkomustaður í Hallormsstaðaskógi og eitt vinsælasta tjaldsvæði landsins.  Þá eru endurbætur á tjaldsvæðinu við Höfðavík (fyrir utan sjoppuna) langt komnar.  Eru þessi svæði oft mjög þéttsetin að sumarlagi og eykst straumur ferðafólks ár frá ári.  Það er því þörf fyrir svæði handa fólki sem ekki ætlar að gista yfir nótt, ekki síst fyrir Héraðsbúa sem vilja njóta þjóðskógarins síns.

 

Eitt af því skemmtilegasta við Stekkjarvík er að fyrir 30 árum var þar algjörlega skóglaust land.  Nú er þarna blandaður lerki- og greniskógur með birkiívafi sem skapar skjól og fallegt umhverfi til útivistar.  Opnun Stekkjarvíkur er liður í átaki Skógræktar ríkisins um að bæta aðstöðu til útivistar í þjóðskógum landsins, skógum okkar allra.  Er það von okkar hjá Skógræktinni að fólk noti þessa aðstöðu og njóti.  Velkomin í Stekkjarvík!  Velkomin í þjóðskógana!