Síðastliðið sumar vann starfsfólk S.r. í Haukadal og starfsnemar í skógrækt að því að gera skógarstíg upp á Sandafell ofan Haukadals í Biskupstungum. Liggur stígurinn upp sitt hvoru megin við Svartagil. Nú hefur verið bætt við áningarstöðum og bekkjum við stíginn, en útsýni af stígnum er sérstaklega gott bæði yfir skóginn í Haukadal og Geysi sem er í næsta nágrenni. Stígagerð þessi er liður í því að bæta aðstöðu fyrir ferðafólk í þjóðskóginum. Á meðfylgjandi mynd sem starfsneminn Anne Wolff tók, sjást Einar Óskarsson sem er nýráðinn verkstjóri í Haukadalsskógi og Nicolas Martin. Anne og Nicolas eru nemendur í skógfræði við háskólann í Nancy í Frakklandi og verða hér í fjóra mánuði í starfsþjálfun hjá Skógrækt ríkisins á Suðurlandi.