Kló á viðarvagni sem notuð er til að hlaða bolunum á vagninn í skóginum og afferma í stafla
Kló á viðarvagni sem notuð er til að hlaða bolunum á vagninn í skóginum og afferma í stafla

Samtals um 2.000 rúmmetrar grisjaðir úr Vaglaskógi og Stálpastaðaskógi

Grisjun hefur gengið vel þetta árið í skógum landsins. Með tilkomu grisjunarvélar er nú hægt að ná meira viðarmagni úr skógunum. Viðarmagn sem ekið verður úr Stálpastaðaskógi í haust losar eitt þúsund rúmmetra ef áætlanir standast. Þessa dagana er akstur að hefjast með timbur úr Vaglaskógi þar sem milli átta og níu hundruð rúmmetrar standa nú í stæðum eftir grisjun í sumar.

Töluvert viðarmagn er tiltækt í skógum landsins enda uppsöfnuð grisjunarþörf víða. Þar til samningur var gerður um sölu grisjunarviðar til Elkem á Grundartanga héldu margir að sér höndum við grisjun enda verkið erfitt og tímafrekt, skortur á vinnuafli og tækjum auk þess sem lítið fékkst fyrir viðinn. Nú stendur grisjunin undir kostnaði og jafnvel eilítið betur.

Stærstu grisjunarverkefnin á vegum Skógræktar ríkisins í sumar hafa verið unnin á Vöglum í Fnjóskadal og í Stálpastaðaskógi í Skorradal. Á Vöglum var aðallega grisjuð um hálfrar aldar gömul stafafura og lerki en einnig rauðgreni og svolítið af alaskaösp. Sömuleiðis var hreinsað upp timbur úr stafafurureit sem snjóflóð féll á í vetur. Á Stálpastöðum hefur aðallega verið grisjað sitkagreni úr reitum frá því upp úr 1960.

Verkið hefur Kristján Már Magnússon unnið á grisjunarvél þeirri sem hann festi kaup á snemma á þessu ári. Dýrmæt reynsla fæst með þessum fyrstu grisjunarverkefnum með vélinni. Að mörgu þarf að hyggja, meðal annars hvenær árs er vænlegast að grisja skóginn með vél. Í Vaglaskógi eru menn meira bundnir við sumarið því þar er snjóþungt og gjarnan er ófært í skóginum til grisjunar helminginn úr árinu. Við grisjunina á Vöglum í sumar kom berlega í ljós hversu viðkvæm tré í fullum vexti eru fyrir átökunum við grisjunarvél. Þá eru frumur í vaxtarvefjum trjánna þrungnar vökva sem gerir að verkum að börkur er lausari á trjánum en á vetrum þegar vatnsspennan er farin úr. Í Vaglaskógi var grisjað í júní og fram í júlí en á Stálpastöðum hefur verið unnið við grisjunina undanfarinn mánuð rúman. Á báðum þessum stöðum hefur börkur heldur meira flest af trjám við grisjunina en æskilegt væri.

Annað sem reynslan á eftir að kenna íslensku skógræktarfólki betur er hvernig og hversu mikið er grisjað í hverju tilviki. Stundum getur hreinlega verið skynsamlegt að rjóðurfella sem kallað er, að fjarlægja öll trén á tilteknu svæði, til dæmis ef ekki er útlit fyrir að úr trjánum verði nokkurn tíma verðmæt timburtré í flettingu. Þá getur borgað sig að gróðursetja aftur í reitinn og nýta skjólið af skóginum í kring ellegar að nýta þann fræbanka sem er til staðar í sverðinum og láta skóginn endurnýja sig sjálfan. Tré sem vaxa upp með þeim hætti eru gjarnan fallegri og beinvaxnari en trén sem voru fyrir. Þetta á ekki síst við um stafafuru. Einn möguleikinn er að ganga mjög hart fram í grisjun og skilja einungis svo mörg tré eftir að þau geti verkað sem laufþak eða krónuþekja til að hlífa ungviði í uppvexti. Nýting íslensku skógarauðlindarinnar en enn í mótun og smám saman þróast þær aðferðir við skógrækt og skógarnytjar sem best henta á hverjum stað og tíma.

Gert hefur verið ráð fyrir því að byrjað yrði að aka viði úr Vaglaskógi til afhendingar á Grundartanga nú í byrjun vikunnar. Á næstunni verður einnig ekið trjáviði frá Stálpastöðum og á komandi vikum munu vegfarendur því sjá fullhlaðna timburbíla á vegum landsins með verðmæti úr íslenskum skógum. Þetta eru ekki eingöngu skógar Skógræktar ríkisins heldur einnig skógar skógarbænda og annarra skógareigenda. Til dæmis lét Skógræktarfélag Eyfirðinga grisja um 200 rúmmetra viðar með grisjunarvélinni í sumar sem þegar hefur verið ekið út úr skógi.


Séð yfir Fnjóská að bílastæðinu við verslunina í Vaglaskógi
þar sem mestu af timbrinu hefur verið staflað upp.

Fallegur viðarstafli í haustlitadýrðinni á Vöglum í byrjun október.
Starfsmannahúsið Furuvellir lengst til hægri.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson