Charles J. Goemans, verkefnastjóri stígaviðhalds, á einum þeirra göngustíga sem sjálfboðaliðar sjá u…
Charles J. Goemans, verkefnastjóri stígaviðhalds, á einum þeirra göngustíga sem sjálfboðaliðar sjá um að halda við á Þórsmerkursvæðinu. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Charles J. Goemans, verkefnastjóri stígaviðhalds á Þórsmerkursvæðinu, segist aldrei hafa upplifað annað eins sumar og það sem nú er á enda og sjálfboðaliðahóparnir hafi komið miklu í verk við stígalagningu, viðhald og önnur verkefni. Um sjötíu sjálfboðaliðar víða að úr heiminum hafa unnið þar í sumar og samtals skila þeir sem svarar rúmlega 200 vikna vinnu.

Á fréttavefnum mbl.is er rætt við Charles, sem alla jafna er kallaður Chas. Haft er eftir honum að sjálfboðaliðarnir séu fullir eldmóðs og vilji bæta umhverfið og njóta náttúrunnar. Orðrétt er haft eftir Chas: „Sum­arið hef­ur verið stór­kost­legt og það besta frá því við byrjuðum á verk­efn­inu. Ég hef aldrei upp­lifað annað eins sum­ar hér á landi og það var eig­in­lega of gott til að vera satt. Við höf­um náð að koma miklu í verk,“

Sjálfboðaliðar að smíða tröppur og palla í hlíðum Valahnúks. Ljósmynd: Trailteam.isChas hefur stýrt sjálfboðaliðaverkefnum á veg­um Skóg­rækt­ar­inn­ar frá árinu 2012. Verkefnið kallast á ensku Trailteam og á hverju hausti er auglýst eftir sjálfboðaliðum. Mörg hundruð sækja um á hverju ári og leggur Chas  mikla vinnu í að fara yfir umsóknirnar, taka ítarleg viðtöl við þá umsækjendur sem hann telur að komi til greina. Hann velur úr það fólk sem hann telur líklegt að muni falla vel í hópinn, standast álagið sem felst í erfiðri vinnu við krefjandi aðstæður fjarri mannabyggðum í misjöfnum veðrum.

Um 70 sjálf­boðaliðar vinna að verkefnum á Þórsmörk á hverju sumri og segir Chas á mbl.is að þetta fólk skili rúm­lega 200 vikna vinnu samanlagt. Sjálfboðaliðarnir fái að sjálfsögðu ekki greitt fyrir vinnu sína en séu í fullu fæði á meðan, útvegi sjálf­ir nauðsynlegan búnað eins og hlífðarföt og tjald. Hóparnir gista í tjöldum sínum í starfstöð Skógræktarinnar í Langa­dal í Þórs­mörk en þar eru skýli þar sem geymdar eru birgðir, vinna má að matseld, þurrka fatnað og svo framvegis.

Eins og eðlilegt er vilja sjálfboðaliðarnir líka fá að skoða sig um á þessu stórbrotna svæði sem Þórsmörk og nágrenni er. Yfirleitt nota sjálfboðaliðarnir hluta dvalartímans til gönguferða, gjarnan með því að fá bílferð í Landmannalaugar og ganga þaðan til baka á Þórsmörkina.

Vefur sjálboðaliðaverkefnisins er á síðunni trailteam.is þar sem hægt er að sækja um að gerast sjálfboðaliði. Aldurstakmarkið er tuttugu ár en Chas segir að þróunin undanfarin ár hafi verið sú að velja saman hópa sem ekki eru á of víðu aldursbili. Hópar ungra sjálfboðaliða nái best að hristast saman og mynda góðan vinnuanda.

Við yfirferð umsókna er lögð áhersla á að velja fólk sem telja megi víst að hafi kjarkinn sem þarf til að búa vikum saman í tjaldi í misjöfnum veðrum. Eins og sjá má á vef verkefnisins er þar tekið skýrt fram að veðrátt­an á Íslandi sé rysj­ótt og því þurfi fólk að vera vel ­bú­ið til að ráða við verk­efnið. Þá er kostur ef fólk hefur reynslu af stígavinnu eða einhverjum þeim störfum sem henni tengjast.

Bækistöðvar sjálfboðaliðanna eru í starfstöð Skógræktarinnar í Langadal. Ljósmynd: Pétur HalldórssonHóparnir dvelja ýmist hálfan mánuð eða einn og hálfan við sjálfboðastörfin á Þórsmerkursvæðinu. Chas segir að fólk hafi komið frá öllum heimshornum og alltaf bætist ný lönd við. Í sumar hafi til dæmis komið fyrsti sjálfboðaliðinn frá Slóveníu. „Það er eig­in­lega mik­il­væg­ara að geta verið í þess­um aðstæðum en endi­lega að kunna eitt­hvað fyr­ir sér í göngu­stíga­gerð, þótt það sé vissu­lega alltaf gott. Það er alltaf hægt að kenna réttu hand­tök­in,“ seg­ir Char­les í spjallinu við mbl.is og haft er eftir honum að um þriðjung­ur þeirra sem taka þátt í verk­efn­inu hafi gert það áður, slík­ar séu vin­sæld­irn­ar. Reynt sé að hafa hvern hóp sem fjöl­breyti­leg­ast­an, kynja­hlut­föll­in séu jöfn og ald­ur og reynsla fólks ólík.     

Aðstæður til stígavinnu á Þórsmerkursvæðinu hafa verið með allrabesta móti í sumar enda hefur veðrið leikið þar við fólk. Því hafa verkefni sjálfboðaliðanna gengið einstaklega vel. Chas segir líka við mbl.is að fólkið sé fullt af eldmóði og vilji bæta umhverfi sitt, auk þess að njóta náttúrunnar.  „Þegar fólk hugs­ar þannig er ekk­ert drama í gangi,“ segir hann.

Texti: Pétur Halldórsson