Í hvassviðrinu sem gekk yfir vestanvert landið aðfaranótt þriðjudagsins 8. nóvember sl. varð nokkuð staðbundið stormfall  í Stálpastaðaskógi. Skaðinn varð í sitkagrenireit með stórum trjám. Þar féllu 20-25 tré, 15-18 m að hæð, sem ýmist brotnuðu eða féllu á rót. Þetta vindfall átti sér stað á mjög afmörkuðu svæði neðst í reitnum. Ekki falla öll trén til jarðar heldur hanga hvert utan í öðru, hálffallin og þarf oft lítið til að fella þau alveg. Við aðstæður sem þessar skapast hætta fyrir gesti og gangandi á svæðinu og því brugðust starfsmenn Vesturlandsdeildar Skógræktar ríkisins skjótt við og hreinsuðu svæðið af föllnum og fallandi trjám, auk þess að fella þau tré sem voru orðin hættuleg vegna rótarslits. Svæðið er því orðið öruggt til útivistar aftur.

Þó svo að vindskaðar af þessu tagi séu ekki algengir hérlendis þá eru þeir nokkuð algengir í öðrum löndum sem hafa skóg. Nægir þar að nefna áhrif fellibilsins Guðrúnar árið 2005 en þá féll mikið af skógi bæði í Svíþjóð og Danmörku.   Stærð trjánna, jarðvegsgerð og jarðvegsdýpt, auk vindstyrks, eru helstu áhrifavaldar í stormfalli. Skógar eru einnig viðkvæmari fyrir vindi fyrstu árin eftir grisjun. Þó við eigum því eftir að sjá meira af slíkum vindsköðum hérlendis á næstu árum, eftir því sem skógurinn vex og dafnar, eru jákvæðu fréttirnar þær að skógarnir okkar eru að verða svo stórir að þeir geta fallið í stormi og í þetta sinn féll til nokkuð magn af góðu flettiefni.

Á meðfylgjandi myndum má sjá hvernig  aðstæður voru eftir storminn.

frett_11112011_1

frett_11112011_2

frett_11112011_3

frett_11112011_4

frett_11112011_6

Myndir: Birgir Haukson og Gísli Már Árnason
Texti: Valdimar Reynisson