Gegnum verkefnið Responsible Iceland getur ferðafólk kolefnisjafnað ferðalag sitt til landsins og st…
Gegnum verkefnið Responsible Iceland getur ferðafólk kolefnisjafnað ferðalag sitt til landsins og stuðlað í leiðinni að landbótum. Samið hefur verið við Skógræktina um að stofnunin taki að sér að binda kolefni á löndum í sinni umsjá. Ferðafólkið getur þá fengið að vita hvar kolefnið verður bundið. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Meðal umhverfisverkefna sem hlutu styrk úr Samfélagssjóði Landsbankans fyrir helgi er verkefnið Responsible Iceland sem á að gera ferðafólki kleift að kolefnisjafna ferðir sínar með skógrækt og öðrum landbótum. Skógræktin sér um ræktun skógarins.

Sagt var frá því hér á skogur.is fyrir nokkru að undirritaður hefði verið samstarfssamningur milli Landsskóga ehf. og Skógræktarinnar um kolefnisjöfnun ferðaþjónustu. Landsskógar hafa nú hrundið af stað áðurnefndu verkefni, Responsible Iceland, og hyggjast bjóða ferðafólki kolefnisjöfnun á móti þeirri losun gróðurhúsalofts sem ferðalögum þeirra fylgja. Kolefnisjöfnunin verður í formi landbóta, meðal annars skógræktar, og sér Skógræktin um að rækta skóga á löndum í sinni umsjá fyrir þá upphæð sem Landsskógar afla til skógræktarverkefna.Frétt Morgunblaðsins með fyrirsögninni Brýnt að ferðafólk kolefnisjafni

Morgunblaðið ræðir í dag við Arngrím Viðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóra Landsskóga ehf. Hann segir drauminn vera að koma þessu á markað í útlöndum og selja kolefnisjöfnunina bæði einstaklingum og fyrirtækjum. Verkefnið Responsible Iceland sé ekki rekið í hagnaðarskyni og styrkurinn frá Landsbankanum, sem nam 650.000 krónum, nýtist til að hefja tækni- og markaðsvinnu. Þetta sé þróunarverkefni á byrjunarreit en vænst sé góðs samstarfs við fyrirtæki, bílaleigur, flugfélög, ferðaskrifstofurog hótel sem séu vettvangur Landsskóga fyrir sölu kolefnisjöfnunar.

Arngrímur bendir á í spjallinu við Morgunblaðið að hérlendis hafi einungis Íslendingar verið markhópur kolefnisjöfnunar fram að þessu. Hægt muni þó ganga ef ætlunin sé að við gerum þetta sjálf með eigin framlögum. Nauðsynlegt sé að fá ferðafólk til að taka þátt í því og nýta fjármagnið sem ferðafólk kemur með í náttúruvernd. Orðrétt segir hann loks við Morgunblaðið:

„Verkefnið er líka til þess gert að vekja athygli á því innanlands að framlög ferðamanna ættu að vera nýtt til þess að bæta náttúruna.

Kannski gætum við lagt á hreina kolefnisskatta í framtíðinni sem renna beint í einhver verkefni sem styrkja samfélagið og náttúruna í

stað þess að leggja á bensínskatta.“
 
Texti: Pétur Halldórsson