Í nýjasta hefti Scandinavian Journal of Forest Research skrifa þrír Finnar, þau Jaana Luoranen, Risto Rikala og Heikki Smolander um tilraun með sumargróðursetningu á hengibjörk.  Þau könnuðu lifun, hæð eftir 4 ár og skemmdir (hnjask á berki og þurrkskemmdir).  Niðurstaðan í stuttu máli er sú að gróðursetning á plöntum í fullum vexti í júlí og ágúst kemur ekki verr út en vor (maí) eða haust (september) gróðursetning á plöntum í dvala þar sem jarðvegur er ?venjulegur?.  Í sendnum jarðvegi og mjög þéttum leirjarðvegi var útkoma sumargóðursetningar ekki eins góð hins vegar.  Þá komust þau að þeirri niðurstöðu að rætur vaxa út úr rótarkögglinum í júlí og fram í miðjan ágúst en lítið eftir það.

 

Hvað þýðir þetta fyrir okkur?

1. Þessar niðurstöður má örugglega heimfæra á gróðursetningu birkis á Íslandi, sennilega á gróðursetningu sumargrænna tegunda yfirleitt og hugsanlega á allar tegundir.

 

2. Einnig má heimfæra þetta á okkar jarðveg.  Þ.e. sumargróðursetning í fokmold, mýrarjarðveg og moldarmikla mela ætti að vera í lagi en ekki í sendna mela.

 

3. Betra er að gróðursetja plöntur sem áttu að fara út um vorið í júlí en að geyma þær fram á haust.  Er þetta einkum vegna rótarvaxtar, þar sem rætur plantna í fjölpottabökkum eru að fara í hönk yfir sumarið.

 

4. Í ljósi þessa ættu landshlutaverkefnin að endurskoða bann við sumargróðursetningu.  Hins vegar er ljóst að vandasamara er að meðhöndla plöntur í vexti en plöntur í dvala.  Sérstaklega þarf að passa vel upp á vökvun og að rótarhnausarnir séu haugblautir við gróðursetningu ef þurrt er í veðri.

 

5. Þetta hefur ekki síst þýðingu núna þar sem plöntur í gróðrarstöðvum eru þegar komnar í vöxt um miðjan maí og júnígróðursetning nú verður því eins og júlígróðursetning í venjulegu árferði.