Fjölbreytt sumarstörf eru nú í boði hjá Skógræktinni, meðal annars við mælingar, úttektir og gagnagr…
Fjölbreytt sumarstörf eru nú í boði hjá Skógræktinni, meðal annars við mælingar, úttektir og gagnagrunnsvinnslu. Ljósmynd af pxhere.com

Á vef Vinnumálastofnunar eru nú auglýst 24 sumarstörf hjá Skógræktinni vítt og breitt um landið. Þetta eru almenn störf við skógrækt og skógarumhirðu en einnig er óskað eftir garðyrkjufræðingi eða verkamanni í gróðrarstöð, aðstoðarmanni við forritun og gagnagrunnsvinnslu, aðstoðarfólki við rannsóknir, meðal annars á viðargæðum, og aðstoðarmanni við skógmælingar og úttektir. Umsóknarfrestur er til 25. maí.

Suðurland

Óskað er eftir sex verkamönnum í skógrækt, aðallega við gróðursetningar og stígagerð. Fjórir þeirra yrðu með starfstöð í Þjórsárdal og tveir í Haukadal. Kostur er ef umsækjendur hafa bílpróf.

Jafnframt vantar garðyrkjufræðing eða verkamann til starfa við ræktunarstöð Skógræktarinnar á Tumastöðum í Fljótshlíð.

Vesturland

Þar eru auglýstar tvær stöður verkamanna í skógrækt við gróðursetningu, umhirðu útivistarsvæða, viðhald girðinga og grisjun. Starfstöðin er í Hvammi Skorradal. Umsækjendur þurfa að hafa lokið grunnskólaprófi og vera í áframhaldandi námi. Æskilegt að vera með bílpróf.

Skógarvinna. Ljósmynd af pxhere.comNorðurland

Óskað er eftir sex verkamönnum í skógrækt með bækistöðvar í Vaglaskógi. Helstu verkefni þeirra verða gróðursetning, umhirða útivistarsvæða, viðhald girðinga og grisjun. Viðkomandi þurfa að vera orðin átján ára, hafa grunnskólapróf og vera í námi. Bílpróf er líka æskilegt.

Austurland

Hægt er að sækja um þrjár verkamannastöður í Hallormsstaðaskógi við gróðursetningu, umhirðu útivistarsvæða og önnur almenn störf í skógi. Viðkomandi þurfa að vera orðin átján ára, hafa grunnskólapróf og vera í námi. Bílpróf er líka æskilegt.

Eystra er jafnframt í boði staða aðstorðarmanns skógræktarráðgjafa sem sinnir almennri aðstoð við kortlagningar og gæðaúttektir. Viðkomandi þarf að hafa stúdentspróf, vera með ökuréttindi og stunda nám í skógfræði, landfræði eða líffræði. Starfstöðin er á Egilsstöðum.

Höfuðborgarsvæðið - Mógilsá

Loks eru nokkur áhugaverð störf í boði við rannsóknasvið. Óskað er eftir aðstoðarmanni við forritun og gagnagrunnsvinnu. Viðkomandi mun aðstoða við uppbyggingu gagnagrunns um ástand skóga, sér í lagi að búa til Phyton-skriptur til að færa gögn milli gagnagrunna og einingapróf til að sannreyna flutning gagnanna. Þarna er óskað eftir nema í tölvunarfræði, verkfræði eða stærðfræði á háskólastigi og þarf viðkomandi að hafa grunnþekkingu á SQL, Phyton og Unit Testing. Starfið er á Mógilsá.

Á rannsóknasviði er líka óskað eftir aðstoðarmanneskju í rannsóknum á viðargæðum. Verkefnin felast í úrvinnslu gagna um viðargæði íslensks efniviðar: Úrvinnsla mælinga á styrkleika (beygjustyrks og stífni) og viðarþéttleika fyrir trjátegundirnar alaskaösp, sitkagreni, stafafuru og lerki. Unnið verður að gagnaúrvinnslu og skrifum á lokaskýrslu. Óskað er eftir nema í skógfræði eða öðrum náttúrufræðigreinum á háskólastigi. Starfið er á Mógilsá.

Þá óskar rannsóknasvið eftir þremur sumarstarfsmönnum til að sinna almennri aðstoð við ýmis verkefni, m.a. mælingar, frágang sýna, umhirðu umhverfis og annað sem til fellur. Umsækjendur þurfa að hafa náð 18 ára aldri, vera með grunnskólapróf og ökuréttindi.

Sótt er um öll þessi störf á vef Vinnumálastofnunar. Umsóknarfrestur er til 25. maí.

Smellið hér

Texti: Pétur Halldórsson