Íslenskur viður nú nýttur með margvíslegum hætti

Fallegur pallur og grindverk úr lerki við Farfuglaheimilið Berunesi

Bætt aðstaða fyrir gesti við Höfðavatn er meðal þeirra verkefna sem unnið er að í sumar í umdæmi skógarvarðarins á Hallormsstað. Mikið verk er að sinna viðhaldi á merktum gönguleiðum sem samtals eru um 27 kílómetrar að lengd í skógunum. Viður úr skógunum eystra er nú nýttur með margvíslegum hætti, til dæmis í palla og klæðningar.

Hér á vefnum skogur.is hefur þegar verið tíundað það helsta sem er unnið að í sumar í umdæmum skógarvarðanna á Suðurlandi og Norðurlandi en nú er röðin komin að Austurlandi.

Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Hallormsstað, segir að töluvert púður fari alltaf í það á hverju vori að gera tjaldsvæðin tvö í Höfðavík og Atlavík klár fyrir sumarið, smíða upplýsingaskilti, laga göngustíga, bæta við raftenglum og svo auðvitað að hirða um svæðin allt sumarið, slá gras og þess háttar. Tjaldsvæðin hafa verið vel sótt það sem af er sumri og júnímánuður var sá annar besti frá upphafi enda veðrið sérlega gott og skógurinn með fallegasta móti.

Nýtt upplýsingaskilti við tjaldsvæði, smíðað úr lindifuru og stafafuru

Í vetur voru vélgrisjaðir um 500 rúmmetrar af lerki fyrir austan og sendir til Elkem á Grundartanga. Að auki grisjuðu starfsmenn birki-, lerki- og grenireiti. Úr efninu hefur ýmislegtverið unnið, svo sem eldiviður, kurl í beð og göngustíga, efniviður í vegstikur, útipalla og útsýnispalla, klæðningu og ýmislegt annað smálegt.

Þór segir líka að töluvert hafi verið sagað niður í borð úr ösp fyrir einstaklinga sem grisjað hafa garða sína. Í haust verði svo grisjaðir alls um 400m³ af lerki  til Grundartangaverksmiðjunnar.

Á útivistarsvæðunum eystra eru verkefnin að venju fjölmörg. Merktar gönguleiðir í Hallormsstaðaskógi eru um 27 kílómetrar og krefjast talsverðrar umhirðu og viðhalds.

Á jörðinni Höfða, sem er skammt innan við Egilsstaði og er í eigu Skógræktar ríkisins, er lítið vatn, Höfðavatn, þar sem vinsælt er að renna fyrir fisk. Þar er einnig fjölskrúðugt fuglalíf fyrir áhugasama fuglaskoðara. Nú hefur verið komið fyrir bílastæði við Höfðavatn og útiborði sem gestir geta nýtt sér. Gegnum jörðina liggur reiðstígur fyrir þá sem ætla sér að ríða inn Fljótsdalshérað.

Girðingaviðhald er umtalsverð vinna hjá embætti skógarvarðarins á Hallormsstað. Girðingar liggja hingað og þangað um svæði Skógræktarinnar og mikið verk að líta eftir girðingunum, lagfæra það sem aflaga hefur farið og endurnýja ónýtt. Töluverð vinna er alltaf líka við umhirðu húseigna, málun utan húss og þess háttar, segir Þór, ásamt viðhaldi vega í skóginum, endurnýjun vegræsa og malarburður í vegi og slóða.

Skógrækt ríkisins var nýlega úthlutað styrk til endurbyggingar á Jórvíkurbænum á jörðinni Jórvík í Breiðdal sem er ein af jörðum Skógræktar ríkisins. Samið hefur verði við verktaka að halda áfram því verki sem áður hafði verið hafið með styrk frá Húsafriðunarsjóði. Verkefnið er unnið í samvinnu við Minjastofnun Islands.  

Skógar í umsjá deildarinnar eru flestir grænir og fallegir núna, segir Þór. Þó sé eitthvað um lerkiátu á afmörkuðum svæðum. Birkiskógurinn á Hallormsstað er heilbrigður að sjá og telur Þór að búast megi við töluverðu fræi í haust á birkinu.

Á þessu ári starfa 14 manns hjá embætti skógarvarðarins á Austurlandi, að sumarstarfsfólki meðtöldu en auk þess vinna verktakar að grisjun í skógunum.

Þyrnirós í fullum blóma í Trjásafninu á Hallormsstað