Þann 9. desember s.l. var mastersverkefni Jóns Ágústs Jónssonar í Tilraunaskóginum í Gunnarsholti valið úr fjölda umsókna sem sérstakt styrkverkefni vísinda- og rannsóknasjóðs Fræðslunets Suðurlands.

Jón Ágúst rannsakar áhrif skógarumhirðu (grisjunar og áburðargjafar) á viðarvöxt og kolefnisbindingu í trjám og í jarðvegi ungra asparskóga undir leiðsögn Bjarna Diðriks Sigurðssonar, skógvistfræðings, og hefur frá vordögum verið í hálfri stöðu á Mógilsá samhliða mastersnáminu við Háskóla Íslands. Verkefnið er samstarfsverkefni Mógilsár, Rala, Háskóla Íslands og Skógfræðideildar sænska landbúnaðarháskólans (SLU) og er kostað af stofnununum, Rannsóknasjóði RANNÍS, Framleiðnisjóði landbúnaðarins, og nú, Fræðsluneti Suðurlands.