Ætlar þú að tína sveppi eða ber um helgina? Í þjóðskógunum á Suður- og Vesturlandi er nóg af bæði sveppum og berjum en það sama er ekki hægt að segja um skógana á Norður- og Austurlandi.

Á Suðurlandi hefur allur gróður, þ.á.m. ber, þroskast óvenju snemma í ár og mátti finna vel þroskuð, jarðarber, hrútaber, bláber og krækiber í skógunum fyrir rúmum mánuði síðan. Óvenjumikið er af bláberjum í öllum skógum á Suðurlandi. Í Þórsmörk er mikið af krækiberjum í viðbót við bláberin. Hindberin eru að mestu upp étin í Múlakoti og á Tumastöðum, en hrútaber og jarðarber má enn finna í Þjórsárdal og Haukadal. Sveppi er að finna víða á Suðurlandi.

Á Vesturlandi er berjaspretta góð og sérstaklega mikið af bláberjum, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Sveppi er einnig að finna á Vesturlandi en þeir eru mikið tíndir að sögn skógarvarðarins og því vænlegast að fara örlítið út fyrir helstu leiðir til að finna þá.

Á Norðurlandi frekar lítið af berjum og það sama má segja um sveppina.

Á Austurlandi láta lerkisveppirnir enn bíða eftir sér. Lítið er af berjum þetta sumarið; bláber og hrútaber víða óþroskuð og krækiber finnast nánast ekki.

  

Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir