Grisjun með skógarhöggsvél hafin á Miðhálsstöðum í Öxnadal

Nú í vikunni hófst grisjun með skógarhöggsvél  í skógarreit Skógræktarfélags Eyfirðinga á Miðhálsstöðum í Öxnadal. Þar er að verki Kristján Már Magnússon skógverktaki með vélina sem hann keypti til landsins í vetur. Mikið er um kræklótt og margstofna lerki- og furutré í skóginum og gjarnan sverar hliðargreinar á furunni sem vélin nær ekki að skera af í einni atrennu. Líklegt er að fara þurfi fyrir vélinni með keðjusög til að ná upp góðum afköstum.

Þetta er, má segja, fyrsta meiri háttar grisjunarverkefnið sem Kristján tekur að sér með nýju vélinni. Hann reiknar með að vera á Miðhálsstöðum næstu þrjár vikurnar eða svo og líka í Kjarnaskógi en síðan tekur við verkefni hjá Skógrækt ríkisins í Vaglaskógi þar sem nokkrir reitir verða grisjaðir.

Skógurinn á Miðhálsstöðum þótti lengi vel ekki björgulegur og trén þóttu stækka hægt. Snjó- og vindálag ásamt þurru og grýttu landi olli því að trén áttu erfitt uppdráttar enda sést það á þeim mörgum. Mikið er um margstofna og kræklótt tré, bæði síberíulerki og stafafuru. Síðustu tvo áratugi hefur skógurinn hins vegar tekið vel við sér og trén orðið beinvaxnari. Mikið er líka um sjálfsáin tré, meðal annars af áðurnefndum tegundum, lerki og furu.

Kristján Márhófst handa á Miðhálsstöðum á þriðjudag, 10. júní, og byrjað var á síberíulerki nyrst í skóginum. Mikið af því er margstofna tré og vandséð að úr þeim verði nokkurn tíma góður timburskógur. Nokkuð erfitt getur reynst að eiga við slík tré með skógarhöggsvél svo eftir á að koma í ljós hversu vel gengur með lerkið.

Í gær var svo byrjað á um 40-50 ára gömlum stafafurureit um miðbik skógarins. Þar má segja að í fyrsta sinn hafi vel á möguleika skógarhöggsvélarinnar. Bæði er það að trén eru nokkuð frjálslega vaxin og á mörgum þeirra sverar greinar sem vélin á erfitt með að skera utan af bolnum. Þarf stundum nokkrar tilraunir til að vélin vinni á greinunum. Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, segir að nokkra daga taki að koma sér upp réttu vinnulagi svo afköstin verði viðunandi. Reiknar hann með að starfsmenn Skógræktarfélagsins muni fara á undan vélinni og búa í haginn, meðal annars með því að saga af neðstu og sverustu greinarnar. Í gær, miðvikudag, náðist að fella 320 tré en afköstin ættu að aukast dag frá degi næstu daga. Því má búast við að álitlegur viðarstafli verði við Miðhálsstaði sem sóttur verður í haust og sendur til Elkem á Grundartanga.

Meðalrúmmál furubolanna í gær var 98 lítrar, segir Kristján Már, skógverktaki. Vélin hefur reynst mjög vel hingað til, segir hann, og ekkert bilað að öðru leyti en því að stöku sinnum losna vökvaslöngur á sögunarhausnum. Það segir Kristján eðlilegt enda gangi mikið á og átökin mikil við trjábolina.

Fyrir Skógræktarfélag Eyfirðinga er hvalreki að fá skógarhöggsvélina til grisjunar enda enginn vegur fyrir fáliðaðan starfsmannahóp félagsins að anna þeirri grisjun sem orðin er tímabær í ýmsum reitum félagsins. Þótt kostnaður við þessa verktöku sé mikill er reiknað með að grisjunin komi út með nokkrum hagnaði fyrir félagið og treysti þar með grundvöll þess. Ingólfur reiknar með að grisjuð verði fura á hálfum öðrum hektara til að byrja með og reynt verði að grisja annað eins af síberíulerkinu ef skógarhöggsvélin ræður við þessi illa vöxnu tré.


Saga skógarins á Miðhálsstöðum í Öxnadal er allsérstæð, eins og segir á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga.

[Félagið] fékk umráðarétt yfir eyðibýlinu Miðhálsstöðum árið 1942 en var fjárvana og réð ekki við girðingarkostnaðinn. Skógrækt ríkisins var þá fengin til verksins og hafði með Miðhálsstaði að gera til 1950 að gert var samkomulag um að S.E. tæki við landinu að nýju. Svæðið var loks girt á árunum 1950-1951, alls um 50 ha lands. Árið 1972 var girðingin síðan stækkuð og er nú 70 ha.

Frá upphafi var vitað um birkileifar í smáum stíl á Miðhálsstöðum og gerðu menn sér vonir um sjálfgræðslu birkiskógar eftir friðun. Fljótlega kom i ljós að þær vonir rættust ekki, enda landið þurrt og hrjóstrugt að mestu leyti. Gróðursett var af kappi í landið frá 1952-1965 og voru sjálfboðaliðar atkvæðamiklir þar sem víðar í reitum félagsins. Eftir stækkun girðingarinnar kom aftur nokkur kippur í gróðursetningar og einnig síðustu árin fyrir aldamótin. Alls hafa verið gróðursettar um 340.000 plöntur á Miðhálsstöðum.

Árangur er æði misjafn. T.d. var miklu plantað af rauðgreni sem ekki hefur dafnað vel á svo rýru landi, en lerki, blágreni og stafafura hefur dafnað vel. Á Miðhálsstöðum er nú fallegur skógur sem fer einkar vel í landinu eins og sést á myndinni hér efst til hægri.

Lengi voru Miðhálsstaðir annálað berjaland en síðustu ár hefur dregið mjög úr berjasprettu vegna þeirra gróðurfarsbreytinga sem orðið hafa við friðun og ræktun. Í staðinn eru þetta nú orðnar gjöfular furusveppaslóðir og athyglisverðar tegundir sambýlissveppa furu hafa fundist í reitnum. Sjá nánar: http://www.ni.is/frettir/nr/1071

Forvitnilegt verður að fylgjast með þessum skógi eftir grisjun, meðal annars hvernig hann stendur af sér stórviðri og snjóalög þegar trén hafa ekki sama stuðning hvert af öðru og fyrir grisjunina. Sömuleiðis verður áhugavert að sjá hvort sjálfsáin tré taka ekki fljótlega að spretta upp innan um eldri trén. Mikið er um sjálfsána furu í Miðhálsstaðaskógi en einnig sjálfsáin tré af bæði lerki, birki og fleiri tegundum. Sjálfsánu stafafururnar eru áberandi beinvaxnari og fallegri en eldri trén eins og gjarnan er í ræktuðum furuskógum.


Myndband af grisjuninni á Miðhálsstöðum 12. júní 2014

Texti, myndir og myndband: Pétur Halldórsson




Séð fram Öxnadal. Þverbrekkuhnjúkur hægra megin við miðja
mynd en skógurinn á Miðhálsstöðum lengst til hægri.