Af vef Ríkisútvarpsins:
Ný alþjóðleg skýrsla um náttúruspjöll sýnir að maðurinn hefur aldrei fyrr valdið jafnmiklum skaða í náttúrunni. Veruleg hætta sé á því að eiturefni í náttúrunni og spjöll á vistkerfinu valdi sjúkdómum gróðureyðingu og ördeyðu á stórum svæðum í sjónum.

Höfundar náttúruverndarskýrslunnar eru á 1.360 sérfræðingar frá 95 löndum. Þeir telja að vegna mannfjölgunar hafi maðurinn mengað eða ofnýtt 2/3 vistkerfisins síðustu 15 ár og spillt bæði vatni og andrúmslofti. 10-30% spendýra fugla og sjávardýra séu í útrýmingarhættu og veruleg hætta steðji að vegna vaxandi eftirspurnar eftir mat vatni byggingarefni og eldsneyti.   

Í skýrslunni segir að eyðing og skemmdir á náttúrunni síðustu 50 ár sé hraðari og umfangsmeiri en á nokkru öðru sambærilegu tímabili í sögu mannkynsins. Eftirsókn eftir náttúrgæðum hafi valdið verulegum og varanlegum skaða á lífríkinu og fjölbreytni náttúrunnar. Þeir nefna sem dæmi að frá 1945 hafi meira land verið tekið til ræktunar á Jörðinni en síðustu 250 árin fyrir 1945. Þeir óttast að skaðinn muni margfaldast næstu 50 ár. 

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að skýrslan varpi ljósi á hvernig athafnir mannsins skaði náttúruna þannig að fjölbreytni lífríkisins minnki.

Skýrsluhöfundar nefna hrun þorskstofnsins við Nýfundnaland sem dæmi um afleiðingar ofveiði. Þeir óttast að stóru vötnin í Afríku hlýni, breytingar á náttúrunni stuðli að útbreiðslu sjúkdóma og nefna kóleru í því sambandi. Tilbúinn áburður skolist af ræktarlandi í sjó og vötn og valdi þörungablóma sem kæfi fisk eða valdi súrefnisskorti við strendur. Skógarhögg leiði oft til skorts á úrkomu og bregðist úrkoman ógni það skógum og öðrum gróðri. Þurrkun mýra spilli vatnsuppsprettum og geymslu á vatni.

Höfundar reyna að vekja athygli á því að náttúran sé meira virði ef hún er nýtt þannig að hún nýtist líka komandi kynslóðum.
 
Ítarefni: Millenium Ecosystem Assessment (samantekt skýrslunnar); skýrsluna í heild má nálgast HÉR.

Leiðari The Guardian (31/3)