Ljósmyndasamkeppni á vegum Forest Europe
Forest Europe, ráðherraráð Evrópu um skógvernd, hleypti í gær, fimmtudag, af stokkunum ljósmyndasamkeppni þar sem meiningin er að þátttakendur sýni skóginn sinn. Mælst er til þess að ljósmyndirnar sýni hvernig skógarnir vernda okkur mennina og hvernig við getum verndað skógana.
Með hjálp einnar eða fleiri ljósmynda eru þátttakendur beðnir að varpa ljósi á þau gæði sem skógarnir veita okkur og hvernig þeir eru skjól og vernd fyrir okkur mennina í margvíslegum skilningi. Einnig mega myndirnar gjarnan sýna þær ógnir sem að skógunum steðja og hvað myndi gerast ef skógunum væri ekki hlíft. Jafnframt er óskað eftir myndum sem sýna skógvernd, hvernig vernda má skóga og hvernig hvert og eitt okkar getur stuðlað að skógvernd. Keppt er í tveimur flokkum, myndum sem teknar eru með stafrænni myndavél og myndum sem teknar eru á farsíma eða spjaldtölvu. Hér má sjá hvaða lönd tilheyra Forest Europe. Ísland er eitt þeirra.
Önnur lota ljósmyndakeppninnar Show Off Your Forest
Samkeppnin sem nú fer af stað er önnur lota í ljósmyndakeppni sem kallast á ensku Show off your Forest eða Sýndu skóginn þinn eins og hún gæti heitið á íslensku. Skógar eru okkur uppspretta fæðu og orku en þeir veita líka skjól og úr skógarafurðum má bæði framleiða ótal nytsama hluti og hráefni fyrir utan öll þau óefnislegu gæði sem skógarnir veita. Í skógum lifa þúsundir dýra- og plöntutegunda frá smæstu örverum, sveppum og þörungum upp í stærstu tré og spendýr. Og skógar eru líka fallegir. Þeir mynda einhver stórbrotnustu form í landslagi sem finna má í náttúrunni.
En skógar eru ekki bara auðlind ... þeir vernda okkur líka
Skógar hamla gegn rýrnun jarðvegs og jarðvegseyðingu. Þeir tempra flæði vatns í náttúrunni og vernda vatnsból sem fólk fær drykkjarvatn úr. Sömuleiðis beisla skógar ár og læki og hindra að farvegir breytist, stöðva foksand og draga úr hávaðamengun. Þeir kljúfa líka kolefni frá súrefni úr andrúmsloftinu, skila súrefninu aftur frá sér en binda kolefnið í trjáviði og rótum. Þess vegna gegna þeir mikilvægu hlutverki í baráttunni við loftslagsbreytingarnar.
Þeir vernda heilsu okkar
Af því að skógar gegna mikilvægu hlutverki í að vernda mannvirki gegn snjóflóðum, skriðuföllum og grjóthruni, rétt eins og þeir veita skjól gegn stórviðrum, gróðureldum, eyðimerkurmyndun og flóðum, verður hlutverk þeirra enn augljósara nú þegar við stöndum frammi fyrir öfgum í veðurfari vegna loftslagsbreytinga.
En skógarnir þurfa líka vernd. Að þeim steðja ýmsar ógnir sem gætu leitt til þess að við töpum þeim gæðum sem hér hafa verið nefnd og skógarnir veita okkur. Bæði náttúrlegar ógnir eins og sjúkdómar, óværa og óveður og ógnir af mannavöldum eins og mengun lofts og lagar, ólöglegt skógarhögg og skógruðningur, útþensla þéttbýlis, skógareldar af mannavöldum og skipting skóglendis í smærri og smærri einingar. Við eigum á hættu að njóta ekki lengur þeirra hráefna, skjóls og annarra gæða sem skógarnir veita okkur ef við verndum þá ekki og tökum að nýta þá með sjálfbærum hætti.
Allt frá árinu 1990 hefur Forest Europe (Ráðherraráð Evrópu um skógvernd) starfað að verndun skóga vítt og breitt um Evrópu og talað fyrir sjálfbærri nýtingu skóga.
Í rúmlega tvo áratugi hafa aðildarlönd Forest Europe unnið að því að þróa aðferðir og stefnu til verndar skógum. Þetta er gert með því að reka áróður fyrir sjálfbærri skógarnýtingu, stuðla að fræðslu og menntun um skóga og skógvísindi, rannsóknum á þessu sviði og með því að ýta undir betri skilning almennings á því hvað skógar leggja mikið til tilveru okkar og gera okkur mögulegt að búa í heilbrigðu umhverfi þar sem okkur líður vel.
... af því að skógvernd þýðir mannvernd
og við viljum fá skoðun þína á málinu
- Sýndu okkur hvernig staðið er að verndun í þínum skógum
- Sýndu okkur hvernig ÞÚ verndar skóga
- Sýndu okkur hvernig skógar vernda okkur
- Sýndu okkur hvað myndi gerast ef við vernduðum ekki skóga
- Sýndu okkur hvaða ógnir steðja að þínum skógum
- Sýndu okkur þau gæði sem skógarnir veita
Sýndu skóginn þinn
Síðasti skiladagur ljósmynda í keppnina er 8. febrúar 2015. Myndir verða birtar á vef samkeppninnar og frá fyrsta degi, 16. október, geta skráðir þátttakendur greitt atkvæði um innsendar myndir eftir ákveðnum reglum. Tilkynnt verður um 30 bestu myndirnar 19. febrúar 2015, tíu myndir sem hafa hlotið flest atkvæði frá almenningi og 20 myndir sem Forest Europe hefur valið eftir viðmiðum sínum um gæði, frumleika eða góða framsetningu á viðfangsefni keppninnar. Sigurvegarar verða útnefndir 26. febrúar og daginn eftir verður tilkynnt hverjir þeirra hljóta sérstök útdráttaverðlaun. Nánar um þetta hér á vefsíðu Forest Europe.
Kynningarmyndband um ljósmyndasamkeppnina