Smjörhnífur tálgaður með exi.
Smjörhnífur tálgaður með exi.

Mikil ánægja með námskeið Lesið í skóginn að Reykjum um helgina

Um helgina var haldið Lesið í skóginn námskeið á vegum Landbúnaðarháskólans í samvinnu við Skógrækt ríkisins.  Þessi námskeið hafa verið haldin frá því Guðmundur Magnússon á Flúðum og Ólafur Oddsson, þá kynningarfulltrúi Skógræktarinnar, héldu fyrsta námskeiðið 1999 í Haukadalsskógi en nokkru áður kynntist Guðmundur tálgutækninni sem kennd er á Lesið í skóginn námskeiðunum á endurmenntunarnámskeiði hjá heimilisiðnaðarfélaginu í Dölunum í Svíþjóð.

Þessi tálgutækni er ekki kennd í nágrannalöndum okkar en hér á landi hefur tæknin náð meiri og meiri útbreiðslu eftir því sem hún er kennd víðar og fleiri tileinka sér hana í starfi. Það er t.d. orðið áberandi hvað margir hafa af því atvinnu að tálga gripi sem seldir eru sem minjagripir, s.s. fugla, fígúrur og íslensku dýrin, og að tálgun er orðin hluti af list- og verkgreinakennslu í skólastarfi og í vinnu með ungu fólki í tómstundastarfi.


Þátttakendur á þessu námskeiði komu víða að, meðal annars af Ströndum, Reykjavíkursvæðinu og af Suðurlandi, og tengdust ýmsum starfsgreinum og áhugamálum eins og skógarbúskap, ferðaþjónustu, smíði, kennslustarfi, skógarhirðu og handverki.

Á námskeiðinu var sem fyrr lögð áhersla á tálgutæknina, ferskar viðarnytjar, þurrkaðferðir, brýningu og umhirðu bitáhalda, yfirborðsmeðhöndlun gripa og sjálfbærninytjar í nærumhverfinu ásamt skógar- og trjáhirðu.

Í námskeiðsmatinu kom fram að þátttakendur teldu námskeiðið vera fróðlegt, skemmtilegt og hagnýtt. Ekki bregst heldur jákvæð umsögn um aðstöðuna, aðbúnaðinn í gróðurskálanum og matinn hjá Sveinu í eldhúsinu í Gamla-Garðyrkjuskólanum á Reykjum. Því síður spillti fyrir að ávaxtatré og runnar voru blómstrandi og lyktin og litirnir eftir því í skálanum.



Texti og myndir: Ólafur Oddsson