Vöxtulegt sitkagreni í Haukadalsskógi. Ásamt alaskaösp er sitkagreni sú tegund sem reynst hefur binda mest kolefni á Íslandi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Erfðafræðilegum gæðum trjáa sem nota á til að binda kolefni virðist iðulega vera of lítill gaumur gefinn. Stundum virðist markmiðið um kolefnisbindingu jafnvel vera látið víkja fyrir markmiðum á borð við að nota einungis innlendan efnivið eða að nota sem flestar tegundir. Þetta er niðurstaða vísindagreinar sem kom út fyrir nokkru. Varasamt sé að láta aukamarkmið bitna á þeirri kolefnisbindingu sem möguleg er í skógrækt og nýta verði bestu þekkingu á hverjum tíma við val á tegundum, kvæmum og kynbættum efniviði.
Við gerum okkur öll grein fyrir því að trjátegundir vaxa mishratt og verða misstórar. Bein tengsl eru milli þess og hversu mikið kolefni trén binda. Vöxtur trjáa fer hvort tveggja eftir erfðum og umhverfi. Gott væri að geta valið land til skógræktar þar sem skilyrði eru hvað best, því þar geta stórvöxnustu trén vaxið hraðast. Oftast er þó samkeppni við aðra landnotkun um slíkt land og notast þarf við það land sem býðst. Til að hámarka kolefnisbindingu þarf því að velja trjátegundir og kvæmi sem vaxa best við aðstæður á staðnum þar sem rækta á skóginn. Er það einkum átt við veðurfar og jarðvegsgæði.
Í áætlunum um skógrækt er fengist við að velja tegundir, kvæmi og stundum kynbættan efnivið sem nær markmiðum skógræktar miðað við aðstæður á staðnum sem valinn hefur verið. Þegar kolefnisbinding sem loftslagsaðgerð er meðal markmiða skiptir máli að velja tré sem vaxa eins hratt og mögulegt er og verða stór. Síðan kemur til annarra sjónarmiða, svo sem atriða er varða verðmæti viðar, fjölbreytni, ásýnd, hefðir og smekk. Í áætlunum er oftast reynt að finna lausnir sem koma til móts við sem flest sjónarmið. Stundum ná þó sumar áherslur að ryðja öðrum úr vegi og verða til þess að árangur í kolefnisbindingu verður minni en æskilegt væri.
Á síðasta ári kom út grein í vísindaritinu Climate and Development um tillit sem tekið er til erfðafræðilegs efniviðar í áætlunum um loftslagsaðgerðir með skógrækt.* Höfundar greinarinnar skoðuðu áætlanir 38 skógræktarverkefna sem styrki fengu í gegnum svokallað kerfi um hreina þróun (Clean Development Mechanism eða CDM), þar sem iðnríki veita fjármagn til þróunarríkja til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda. Verkefnin voru í Asíu, Afríku og Rómönsku-Ameríku, flest á fremur þurrum svæðum, ekki í regnskógabeltinu. Niðurstöðurnar voru þær að öll verkefnin gerðu ráð fyrir öðrum ágóða auk kolefnisbindingar, þ. á m. atvinnusköpun, eldiviði og timbri, sem fer ágætlega saman við kolefnisbindingu sé rétt að öllu staðið. Fjögur verkefnanna miðuðust við að nota margar tegundir og nánast eingöngu innlendar, væntanlega í þágu líffjölbreytnimarkmiða, en óljóst er hvort það leiðir til mikillar eða lítillar kolefnisbindingar.
Val á efniviði
Í flestum verkefnunum var gert ráð fyrir að gróðursetja eina eða fáar trjátegundir og þá þær sem líklegastar væru til að ná hröðum og góðum vexti og binda mikið kolefni. Í meirihluta verkefnanna voru innfluttar tegundir notaðar, oft eingöngu, enda höfðu þær sannað gildi sitt á viðkomandi svæði. Stundum var það þó einkum af því að hægt var að nálgast fjölgunarefni, ýmist af því að nota mátti græðlinga eða að hægt var að kaupa fræ frá útlöndum.
Sjaldnast var í áætlununum gengið lengra en að tilgreina tegundir. Því var óljóst hvort nota ætti besta fáanlega efniviðinn og því síður ljóst á hvaða stigi þekkingin væri á því hver væri besti efniviðurinn. Þetta getur verið stórt atriði því margfaldur munur getur verið á vexti trjáa sömu tegundar eftir uppruna og erfðauppleggi. Sem dæmi má nefna að sitkagreni frá Seward í Alaska vex hér yfirleitt mjög vel á meðan sitkagreni frá Juneau er mun viðkvæmara og sitkagreni frá Oregon þrífst alls ekki. Svipað má segja um tegundir sem fjölgað er með græðlingum: Alaskaasparklónninn Iðunn getur bundið 20 tonn CO2/ha á ári á meðan klónninn Sterling er runni og bindur nánast ekkert. Í undantekningartilfellum var tilgreint að nota ætti kynbættan efnivið, en kynbætur hafa gjarnan aukið vaxtarhraða trjáa um 10%-30%.
Lítið hugað að erfðafræðilegum gæðum trjánna
Allt hefur þetta sitt að segja í kolefnisbindingu. Heildarniðurstaða greinarinnar var sú að erfðafræðilegum gæðum trjánna sem nota átti til að binda kolefni hefði verið of lítill gaumur gefinn í flestum verkefnunum og að í sumum virtist kolefnisbinding jafnvel hafa orðið að víkja fyrir markmiðum á borð við að nota einungis innlendan efnivið eða að nota sem flestar tegundir. Virðast menn þar hafa verið að fylgja kreddunum „staðarkvæmið er best“ og „því fjölbreyttara því betra“, sem löngu er búið að afsanna.
Skógrækt á Íslandi er að mörgu leyti lík því sem er í mörgum þeirra landa sem rannsóknin náði til. Skógrækt hér stendur ekki á gömlum merg. Hér er enginn skógariðnaður til að borga brúsann og þrýsta á um framfarir. Við höfum þurft á fáum áratugum að afla okkur þekkingar og reynslu á öllu sem snýr að skógrækt og erum langt frá því að vera komin á endapunkt í þeim efnum. Við getum því lært heilmikið af rannsóknum sem þessum. Meðal þess er að:
- Leyfa ekki aukamarkmiðum að ryðja meginmarkmiðum úr vegi
- Nota bestu þekkingu hvers tíma við val á tegundum, kvæmum og kynbættum efniviði
- Efla þá þekkingu
- Tryggja eins og hægt er aðgang að besta mögulega efniviðnum
* To what extent are genetic resources considered in environmental service provision? A case study based on trees and carbon sequestration