Í skógarlundi í nágrenni Þorlákshafnar. Fv. Davíð Halldórsson, umhverfisstjóri Ölfuss, Guðmundur Stefánsson, sviðstjóri Landverndarsviðs Landgræðslunnar, Anna Björg Níelsdóttir, formaður skipulags-, bygginga- og umhverfisnefndar Ölfuss, Sveinn Steinarsson, forseti bæjarstjórar Ölfuss, Guðjón Magnússon, fræðslu- og kynningarstjóri Landgræðslunnar, Árni Bragason landgræðslustjóri, Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri Ölfuss, og Garðar Þorfinnsson, héraðsfulltrúi Landgræðslunnar. Fundinn sat einnig Sigurður Jónsson, skipulags- og byggingafulltrúi Ölfuss. Mynd: Landgræðslan
Bætt búsetuskilyrði fyrir íbúa í Þorlákshöfn
Viðræður eru hafnar milli Skógræktarinnar, Landgræðslu ríkisins, sveitarfélagsins Ölfuss og Skógræktarfélags Íslands um uppgræðslu í nágrenni Þorlákshafnar. Áhugi er á verkefninu ef til þess fæst fjármagn.
Frá þessu segir í frétt á vef Landgræðslunnar. Að undanförnu hafi verið rætt um uppgræðslu landsvæðis sem gengur undir nafninu Þorláksskógar í nágrenni Þorlákshafnar eins og nafnið bendir til. Í því sambandi hafi verið horft til samvinnu Skógræktarinnar, Landgræðslunnar, sveitarfélagsins Ölfuss og Skógræktarfélags Íslands.
Nýlega undirrituðu Árni Bragason landgræðslustjóri og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri áframhaldandi samstarfssamning um Hekluskógaverkefnið þar sem markmiðið er að draga úr áhrifum öskugosa úr Heklu með því að klæða nágrenni eldfjallsins birkiskógi á ný. Þeir Árni og Þröstur hafa jafnframt rætt saman um að hrinda af stað hliðstæðu verkefni á Hafnarsandi í grennd við Þorlákshöfn. Eru þeir sammála um að taka höndum saman og vinna að framgangi Þorláksskóga að því tilskildu að fjármagn fáist.
Í frétt Landgræðslunnar kemur fram að þegar nýi samstarfsamningurinn um Hekluskóga var undirritaður hafi Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, nefnt Þorláksskógasvæðið sem dæmi um næsta stórverkefni á sviði landgræðslu og skógræktar. Einnig hafi Árni Bragason gert uppgræðslu á svæðinu að umtalsefni á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands.
Í samantekt Hreins Óskarssonar hjá Skógræktinni og Garðars Þorfinnssonar Landgræðslunni frá árinu 2005 kemur fram að landgræðslustarf í nágrenni Þorlákshafnar eigi sér langa og merkilega sögu. Sandfok ógnaði byggð og framtíð útgerðar var í húfi nema tækist að stöðva sandfokið. En þótt það hafi tekist hefur enn ekkert orðið af frekari uppgræðslu á vegum stofnananna og er efnahagshruninu meðal annars kennt um.
Fundað um málið
Á dögunum var haldinn fundur með starfsmönnum sveitarfélagsins Ölfuss og Landgræðslunnar. Þar voru menn sammála um að íbúum Þorlákshafnar yrðu sköpuð betri búsetuskilyrði ef Þorláksskógar yrðu að veruleika. Starfsmenn sveitarfélagsins bentu á að hugmyndir heimamanna um framtíð sveitarfélagsins fælust í „grænum“ áherslum og féllu Þorláksskógar vel að þeirri hugmyndafræði.
Fram kemur á vef Landgræðslunnar að í frumdrögum að framkvæmdaáætlun fyrir Þorláksskóga hafi á sínum tíma verið gert ráð fyrir að rækta landbótaskóga í landi Sveitarfélagsins Ölfuss. Meiningin hafi einnig verið að hluti skógræktarsvæðisins næst bænum yrði gerður að almenningsgarði. Verkefnið myndi stuðla að bættum búsetuskilyrðum í Þorlákshöfn og auka lífsgæði íbúanna. Veðurfar yrði betra í skjóli skógarins, sandfok yrði úr sögunni og vatnsgæði myndu aukast. Snauður sandurinn myndi breytast í gróðurlendi með stóraukinni líffjölbreytni og jarðvegur byggjast upp. Skógurinn tæki í sig svifryk og önnur mengunarefni auk þess sem þessi skógrækt myndi að sjálfsögðu binda koltvísýring og nýtast í alþjóðlegu kolefnisbókhaldi Íslands. Svæðið yrði jafnframt mun betra til útivistar.
Ótrúlegur árangur
Eitt fyrsta Landgræðsluskógaverkefni Landgræðslu ríkisins, Skógræktarinnar og Skógræktarfélags Íslands er austan vegar vegar skammt frá Þorlákshöfn, en þar hófst gróðursetning árið 1990. Davíð Halldórsson, umhverfisstjóri Ölfuss, sagði í spjalli við vef Landgræðslunnar að mikið starf hefði verið unnið í skógrækt á svæðinu. Fyrstu 10 árin hefði verið plantað um 120 þúsund plöntum en frá árinu 2000 hefðu verið gróðursettar um 80 þúsund plöntur. Þá er þess minnst að árið 1994 hafi Skógræktarfélag Íslands, Landgræðsla ríkisins og Ölfushreppur gert með sér samning til 50 ára um ræktun skóga á örfoka eða lítt grónu landi á söndunum norðan Þorlákshafnar. Skógræktin er þarna með nokkra tilraunareiti og um árabil hafa einstaklingar ræktað upp skóg nyrst á sandinum við mjög erfiðar aðstæður. „Alls hefur verið plantað á um 10 hektara svæði nálægt byggðinni sem síðar mun nýtast sem útivistarsvæði. Fyrirhugað er að planta í enn stærra svæði því nægilegt er landsvæðið. Árangurinn sem náðst hefur er alveg ótrúlegur,“ sagði umhverfisstjóri Ölfuss í spjalli við land.is.
Plöntum líður best í faðmi lúpínunnar
Upphaflega var plantað með venjulegum plöntustaf en Davíð sagði að það hefði sýnt sig að þær plöntur sem þannig voru settar niður ættu mjög erfitt uppdráttar. Aðeins lifðu 15% fyrstu árin, sandblásturinn drap stóran hluta og frostlyfting hefur dregið úr vexti og viðgangi planta. Hrossaskítur skiptir öllu máli við þessa gróðursetningu, segir Davíð.
Alaskavíðirinn, sem er fljótsprottnastur, er orðinn um 6 til 8 metrar og hæstu birkiplönturnar ná fjögurra metra hæð. Davíð segir að að birkið hafi staðið sig best. „Birkið er ótrúlega harðgert en alltaf kelur eitthvað af víðinum. Reynt hefur verið að bera áburð á svæðið sem er stórt og því hefur það reynst tímafrekt og erfitt. Þá er það lúpínan sem kemur til bjargar en búið er að sá miklu af lúpínu í nágrenni Þorlákshafnar. Þar sem lúpínu er að finna virðist plöntunum líða best. Lúpínunni hefur verið plantað vítt og breitt um svæðið en einnig hefur hún sáð sér sjálf,“ sagði Davíð Halldórsson, umhverfisstjóri Ölfuss, í samtali við vef Landgræðslunnar.