Nýgrisjaður furuskógur.
Fjarfundabúnaður sparar tíma, fé og fyrirhöfn og tengir starfstöðvar
Á fundi framkvæmdaráðs Skógræktarinnar sem haldinn var 13. desember var meðal annars kynnt ný handbók með samræmdu vinnulagi fyrir skógræktarráðgjafa. Rætt var um fjárhagsáætlun, landupplýsingakerfi, 50 ára afmæli skógræktarrannsókna á Mógilsá, útlit stofnunarinnar og fleira.
Skógræktin hefur tekið í notkun fjarfundarkerfið StarLeaf. Með því er markmiðið að draga úr ferðum vegna fundahalda. Auk þess að spara bæði tíma starfsmanna og fjármuni stofnunarinnar gefur þetta stóraukna möguleika á samskiptum milli starfsmanna og starfstöðva. Í kerfinu er hægt að setja upp fundi með glærusýningum og með því gefst meðal annars gott tækifæri til að miðla ýmiss konar fræðsluerindum til starfsmanna vítt og breitt um landið.
Fundur framkvæmdaráðs Skógræktarinnar 13. desember var haldinn í fjarfundakerfinu nýja og sátu tveir fulltrúar á Egilsstöðum, þrír á Mógilsá, einn á Akureyri og einn á Selfossi. Fundinn sátu allir fulltrúar í framkvæmdaráði, skógræktarstjóri, fagmálastjóri og sviðstjórar auk ritara.
Rætt var um fjárhagsáætlun Skógræktarinnar fyrir 2017 sem verður fyrsta árið sem Skógræktin starfar sem ein heild. Staða stofnunarinnar er góð og útlitið gott fram undan. Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógarauðlindasviðs, vinnur nú ásamt Gunnlaugi Guðjónssyni fjármálastjóra að áætlunum fyrir skógræktarráðgjafana sem starfa í landshlutunum. Framlög til skógræktar á bújörðum verða veitt í sama hlutfalli og verið hefur í hverjum landshluta.
Ný handbók samræmir vinnubrögð
Á framkvæmdaráðsfundinum var kynnt ný handbók fyrir skógræktarráðgjafa Skógræktarinnar sem tekin verður í notkun um áramót. Í kjölfarið hittust skógræktarráðgjafarnir á tveggja daga fundi á Bifröst í Borgarfirði ásamt Sigríði Júlíu til að fara yfir handbókina. Við vinnslu hennar var reynt að draga fram þær aðferðir sem reynst hafa best í landshlutunum og samræma vinnulag við umsóknir, samningagerð, úthlutun plantna, eftirlit, skýrsluhald og fleira sem snertir samstarfið við skógarbændur. Þetta er tilraunaútgáfa handbókarinnar sem tekin verður til endurskoðunar í lok næsta árs.
Nýjar gervitunglamyndir í augsýn
Framkvæmdaráðið fór því næst yfir skýrslu nefndar um hugbúnaðarmál landrænna upplýsingakerfa og loftmynda. Nokkur umræða hefur verið innan Skógræktarinnar um þessi mál og meðal annars verið rætt hvort rétt væri að nýta dróna til loftmyndatöku. Framkvæmdaráðið telur óvíst að það borgi sig að skógræktarráðgjafar sjái sjálfir um kortlagningu með drónum enda sé það tímafrekt og ekki á færi hvers sem er að beisla þá tækni, ekki síst þegar mynda þarf stór svæði. Ákveðið var að endurskoða heldur samstarfið við Loftmyndir ehf. um aðgang að loftmyndum svo brúa mætti bilið þar til nýjar gervitunglamyndir verða aðgengilegar Skógræktinni. Þær myndir verða teknar á næsta ári og fær Skógræktin aðgang að þeim sér að kostnaðarlausu í samstarfi við Landmælingar Íslands.
Afmæli Mógilsár
Á næsta ári verður hálf öld liðin frá því að skógræktarrannsóknir hófust á Mógilsá við Kollafjörð. Afmælinu verður fagnað með tvennum hætti, annars vegar með Fagráðstefnu skógræktar, sem Rannsóknastöð skógræktar heldur í Hörpu í Reykjavík í mars, og hins vegar með afmælishátíð á Mógilsá í ágúst. Framkvæmdaráð samþykkti að gefa skyldi út fræðslubækling fyrir Mógilsá í tilefni af 50 ára afmælinu og var kynningarstjóra falin umsjón með því. Jafnframt verður unnið að gönguleiðabæklingi.
Þá var einnig rætt um efni Ársrits Skógræktarinnar 2016. Í ritinu verður meðal annars litið yfir farinn veg í sögu Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefnanna, fjallað um nýafstaðna sameiningu og birtar helstu tölur úr starfseminni 2016, bæði úr nytjaskógrækt á lögbýlum og úr þjóðskógunum.
Ýmislegt á döfinni
Sviðstjóri skógarauðlindasviðs hittir skógarverði Skógræktarinnar á fundi í janúar til að ræða um ýmis mál sem tengjast þjóðskógunum og þar er af nógu að taka. Fram undan er einnig að hanna nýtt útlit fyrir umslög, bréfsefni, glærusýningar, veggspjöld og fleira sem tengist ásýnd stofnunarinnar og hefur verið rætt við grafískan hönnuð um að vinna það verk ásamt uppfærslu á útliti gönguleiðabæklinga og fleira efnis.
Ákveðið var að allar starfstöðvar skyldu nota merki Skógræktarinnar með sama hætti í skjölum og bréfum, á húsum, skiltum, merkimiðu og fleira slíku. Ekki væri þörf á að greina sundur svið stofnunarinnar heldur ætti merkið með áletrun sinni að vera sameiginlegt tákn allra hluta starfseminnar. Ekkert er þó því til fyrirstöðu að upprunamerkja afurðir með einhverjum hætti svo sjá megi úr hvaða skógum þr eru enda vaxandi krafa innan lands og utan um að kaupendur vöru geti fengið að vita hvaðan hún er.
Í lok fundar framkvæmdaráðs var farið yfir nýtt skráningarform sem starfsfólk Skógræktarinnar getur notað til að skrá vinnustundir sínar og flokkað með nákvæmari hætti en áður hefur verið verkefni sín í verkefnabókhald. Þetta fyrirkomulag er liður í því að fá betri yfirsýn yfir verkefni stofnunarinnar og gera fjárhagsáætlanir auðveldari og nákvæmari.