Áhugaverðar niðurstöður í klónatilraun með ösp á Héraði

Í klónatilraun með alaskaösp sem gróðursett var á Höfða á Völlum á Héraði árið 2000 eru annars vegar þekktir klónar sem eru fulltrúar helstu söfununarsvæða á hafrænum svæðum Alaska og hins vegar klónar úr söfnunarleiðangrinum 1985 sem eru fulltrúar fyrir svæði með meginlandskenndara loftslagi. 

Um þetta er fjallað í nýútkomnu Riti Mógilsár sem hefur að geyma grein eftir Þröst Eysteinsson, sviðstjóra þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins, og Lárus Heiðarsson, skógræktarráðunaut hjá Skógrækt ríkisins. Greinin heitir Niðurstöður mælinga á alaska- og balsamösp eftir 13 vaxtarsumur á Höfða á Fljótsdalshéraði. Rit Mógilsár er aðgengilegt á rafrænu formi á vef Skógræktar ríkisins.

Vorið 2014 voru gerðar mælingar sem leiddu í ljós tífaldan mun á meðalrúmmáli vaxtarmesta og vaxtarminnsta klónsins. Klónar frá hafræna loftslagsbeltinu reyndust bestir. Þetta voru klónarnir 'Jóra' frá Yakutat, 'Hallormur' frá Lawing á austanverðum Kenai-skaga og 'A-566-04' frá Cordova/Copper River Delta svæðinu.  


Meðalrúmmál trjáa. Klónar með sömu bókstafi eru ekki tölfræðilega
frábrugðnir hver öðrum

Niðurstöðurnar benda ekki til þess að áhugavert sé að leita efniviðar utan þess loftslagsbeltis. Meðalrúmmál allra klóna var þrefalt meira á hallandi landi en flötu. Fylgni á hæðarmælingum var mjög marktæk frá 5 til 13 ára aldurs og gaf til kynna að hægt væri að velja klóna til fjölgunar við fimm ára aldur tilraunar. Betra væri að velja fremur þröngan hóp en víðan.

Fjórir hæstu klónarnir (20% klóna í tilrauninni) árið 2005 voru enn í efstu sætum árið 2014 en val á 8 hæstu klónum (40%) árið 2005 hefði leitt til fjölgunar á slakari klónum einnig. Sá margfaldi munur sem fram kom á vexti undirstrikar mikilvægi þess að velja bæði bestu fáanlegu klóna og hæfilegar landgerðir til asparræktar.

Texti: Pétur Halldórsson